Innlent

Tveir hand­teknir eftir hús­leit í Laugar­dal og Kópa­vogi

Agnar Már Másson skrifar
Stór og mikil lögregluaðgerð átti sér stað við Austurbrún í Laugardal í gær.
Stór og mikil lögregluaðgerð átti sér stað við Austurbrún í Laugardal í gær. Vísir/Viktor

Lögreglan handtók tvo í gær eftir húsleit við Austurbrún í Laugardal í Reykjavík annars vegar og í Kópavogi hins vegar. Alls eru fimm í haldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á skipulagðri glæpastarfsemi.

Málið teygir anga sína alla leið til Raufarhafnar, þar sem lögreglan rannsakar nú skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnaframleiðslu.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá í tilkynningu að hún hafi ráðist í tvenna húsleit í gær, annars vegar í Laugardal í Reykjavík og hins vegar í Kópavogi. 

Lögregla segir að tveir hafi verið handteknir í aðgerðum gærdagsins. Alls eru fimm manns nú í gæsluvarðhaldi og í dag verður lagt mat á hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim sjötta, að sögn lögreglu.

Með þessu hefur lögreglan ráðist í sex húsleitaraðgerði í tengslum við málið. 

Fyrstu aðgerðir í málinu voru þann 18. júní síðastliðinn en þá var ráðist í húsleit á þremur stöðum, að sögn lögreglu. Þann dag var ráðist í húsleit á Aðalbraut 37 á Raufarhöfn og Þórólfsgötu 5 í Borgarnesi, auk annars húss á höfuðborgarsvæðinu staðsetning hvers liggur ekki fyrir.

Íbúðahúsnæðið liggur að Aðalbraut 37 en þar var áður leikskóli. Skjáskot/Ja.is

Síðan þá hefur verið ráðist í húsleit á þremur stöðum til viðbótar, þar með talin aðgerð gærdagsins við Austurbrún 21 í Laugardal, eins og fram kom í umfjöllun Vísis í gær. Lögreglan hefur að öðru leyti lítið tjáð sig um málið. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×