Innlent

Vatnslögn í sundur í Smára­lind

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ekkert stórtjón varð vegna lekans.
Ekkert stórtjón varð vegna lekans. Vísir/Vilhelm

Slökkviliðið var kallað út á tíunda tímanum í morgun vegna vatnsleka í Smáralind, og voru tveir dælubílar sendir á vettvang. Umsjónarmaður Smáralindar segir að ekkert stórtjón hafi orðið, allar verslanir hafi opnað í morgun nema ein.

Guðmundur Hreinsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að tveir dælubílar hafi verið á staðnum og það hafi tekið um tvær klukkustundir að hreinsa upp vatnið.

Hann telur að vatnið hafi þakið um þúsund fermetra og verið tveir sentímetrar á dýpt.

Sveinn Stefánsson, umsjónarmaður Smáralindar, segir að lítil lögn hafi farið í sundur í vaski við einn veitingastað í Smáralind.

Hún hafi örugglega farið í sundur í nótt, miðað við vatnið sem hafði komið úr henni.

Eru miklar skemmdir í húsnæðinu?

„Nei þetta var ekkert þannig, þetta var ekki mikið vatnsmagn, bara flísar og svona, þetta var bara þurrkað upp.“

Sveinn segir að allar verslanir hafi verið opnar í dag nema ein, fataverslunin 4F. Föt hjá þeim hefðu eitthvað blotnað og þau hafi ætlað að meta stöðuna í dag.

„Þetta voru þrjár eða fjórar búðir sem þetta hafði einhver áhrif á fyrir opnun, en þær opnuðu held ég allar nema ein.“

„Þetta er ekkert stórtjón sem betur fer,“ segir Sveinn Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×