Erlent

Sam­göngu­ráð­herrann lést daginn sem Pútín rak hann

Árni Sæberg skrifar
Starovoit var samgönguráðherra Rússlands þangað til í morgun.
Starovoit var samgönguráðherra Rússlands þangað til í morgun. Gavriil Grigorov/AP

Roman Starovoit, sem Vladímír Pútín rak úr stöðu samgönguráðherra Rússlands í morgun, fannst látinn af völdum byssuskots í bifreið sinni í dag. Yfirvöld í Rússlandi segja hann hafa fallið fyrir eigin hendi.

Tilkynnt var um brottrekstur Romans Starovoit, samgönguráðherra, í tilskipun frá Pútín í morgun. Starovoit hafði aðeins gegnt embættinu frá því í fyrra. Hann var áður héraðsstjóri landamærahéraðsins Kúrsk þar sem Úkraínumenn gerðu óvænta innrás í fyrra.

Engin skýring var gefin á brottrekstrinum en miklar raskanir urðu á flugsamgöngum í Rússlandi um helgina vegna drónaárása Úkraínumanna.

Í tilkynningu alríkislögreglunnar í Rússlandi, sem CNN fjallar um, segir að lík Starovoits hafi fundist í bifreið í úthverfi Moskvu. Skotsár hafi verið á líkinu og unnið sé út frá þeirri kenningu að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Andlát hans sé þó enn til rannsóknar.

AP fréttaveitan hefur eftir rússneskum miðlum brottrekstur hans í morgun gæti hafa tengst rannsókn á meintum fjárdrætti úr opinberum sjóðum, sem ætlaðir hafi verið vörnum Kúrsk. Fjárdrátturinn meinti hafi verið sagður ein af ástæðum þess að Úkraínu tókst að ráðast inn í Kúrsk í ágúst í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×