Erlent

Þriðjungur endur­reisnarinnar gæti fallið á Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn hefja viðgerðir á blokk eftir drónaárás Rússa.
Menn hefja viðgerðir á blokk eftir drónaárás Rússa. epa/Yuri Kochetkov

Alþjóðabankinn áætlar að tíu ára enduruppbygging Úkraínu muni kosta á bilinu 524 milljarða dala en færi svo að Rússum yrði að ósk sinni og þeir fengju þau svæði sem þeir hafa nú þegar lagt undir sig í friðarsamningum, myndu tæplega 200 milljarðar dala falla á þá.

Ítalska hugveitan Institute for International Political Studies hefur áætlað út frá rannsóknum Alþjóðabankans að endurreisn umræddra svæða; Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhia og Kherson, muni krefjast 188 milljarða dala fjárfestingar.

Samkvæmt þessari sviðsmynd myndu Úkraínumenn ekki aðeins standa frammi fyrir pólitískri sundrung, heldur mögulega verulegri fjárhagslegri misskiptingu, þar sem íbúar á svæðunum fjórum myndu búa við bágari aðstæður en aðrir landsmenn.

Þess ber að geta í þessu samhengi að Úkraínumenn hafa ekki fallist á kröfur Rússa um að þeir gefi eftir hernumda landsvæðið.

Evrópuleiðtogar eru nú staddir í Róm á ráðstefnu um endurreisn Úkraínu, sem er í mikilli óvissu eins og sakir standa. Vopnahlésviðræður hafa að stóru leyti strandað á kergju Rússa til að komast að málamiðlun og þá hafa síðarnefndu gefið í árásir sínar á borgir Úkraínu síðustu daga og vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×