Innlent

Fundu 36 hugsan­lega þol­endur mansals á Ís­landi í al­þjóð­legri lögregluaðgerð

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Embætti hennar tók þátt í aðgerðunum ásamt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og tollgæslan. 
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Embætti hennar tók þátt í aðgerðunum ásamt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og tollgæslan.  Vísir/Vilhelm

Íslensk lögregluyfirvöld fundu 36 hugsanlega þolendur mansals í alþjóðlegri lögregluaðgerð sem fór fram dagana 1. til 6. júní. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að í þessum aðgerðum hafi lögreglan farið á þriðja tug staða eða heimila til að athuga með 250 manns. 

Aðgerðirnar voru hluti af alþjóðlegum aðgerðadögum Europol, Frontex og Interpol gegn mansali.

Langlestir þessara hugsanlegu þolenda voru frá Rúmeníu og var meirihluti þeirra konur, eða 32. Af hugsanlegum þolendum mansals er talið að 34 hafi verið seld í vændi. Öllum var samkvæmt tilkynningu boðin viðeigandi aðstoð. Í tilkynningu kemur fram að fólkið hafi verið á aldrinum 19 til 54 ára.

Í tengslum við þessar aðgerðir voru þessa daga einnig greind 215 flug með tilliti til hugsanlegra fórnarlamba mansals og brotamanna.

Aðgerðirnar, undir heitinu Global Chain, náðu til 43 landa þar sem sjónum var beint að mansali með sérstaka áherslu á kynferðislega hagnýtingu (vændi), þvingaða brotastarfsemi og betl. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, embætti ríkislögreglustjóra og tollgæslan tóku þátt í aðgerðadögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×