Fótbolti

Aukinn á­hugi á EM þrátt fyrir sam­keppni við FIFA

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nýtt heimsmeistaramót félagsliða fór í beina samkeppni við EM kvenna um áhorf en áhugi á EM jókst í Bandaríkjunum, þrátt fyrir það.
Nýtt heimsmeistaramót félagsliða fór í beina samkeppni við EM kvenna um áhorf en áhugi á EM jókst í Bandaríkjunum, þrátt fyrir það. Samsett/Getty

Áhorf á EM kvenna í fótbolta hefur nærri tvöfaldast í Bandaríkjunum frá því á síðasta móti. Það er þrátt fyrir að heimsmeistaramót félagsliða hafi verið í beinni samkeppni við leiki á Evrópumótinu.

Fox Sports er með sýningarrétt á EM kvenna vestanhafs en fyrirtækið greindi frá því dag að áhorf hefði nærri því tvöfaldast á riðlakeppni mótsins, samanborið við fyrir þremur árum síðan.

306 þúsund manns hafi að meðaltali horft á hvern leik í riðlakeppninni, samanborið við 161 þúsund manns á EM 2022. Flestir horfðu á leik Englands við Frakka, um 690 þúsund manns.

„Áhorfstölur á EM hafa farið fram úr okkar björtustu vonir og er um að ræða met fyrir riðlakeppnina,“ segir í yfirlýsingu frá Fox.

Athygli vekur að áhuginn aukist svo, sér í lagi vegna þess að HM félagsliða hefur farið fram í Bandaríkjunum samhliða Evrópumótinu og verið í beinni samkeppni um áhorfstölur. Leikir hafa gjarnan farið fram á sama tíma, klukkan sjö að íslenskum tíma.

Áhugi á heimsmeistaramótinu var minni en forráðamenn FIFA gerðu sér vonir um. Miðaverð á leiki lækkaði umtalsvert eftir því sem leið á mótið og úrslitaleikurinn milli Chelsea og PSG var eini leikurinn í keppninni sem seldist upp á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×