Erlent

Ísrael sprengir í Sýr­landi: Þrír látnir og tugir særðir

Agnar Már Másson skrifar
Reykur rís eftir að sprengja féll á höfuðstöðvar Sýrlandshers í dag.
Reykur rís eftir að sprengja féll á höfuðstöðvar Sýrlandshers í dag. Getty

Þrír voru drepnir og þrjátíu og fjórir særðir í árás Ísraels á Sýrland í dag.

Ísrael gerði í dag árás á höfuðstöðvar sýrlenska hersins og á svæði nálægt forsetahöllinni í höfuðborginni Damaskus.

Þetta ber að líta sem verulega stigmögnun á átökunum í Mið-Austurlöndum en Ísrael er með þessu að fylgja eftir hótunum sínum um að grípa inn í átök milli stjórnarhersins í Ísrael og bardagamanna úr þjóðflokki Drúsa í suðursýrlensku borginni Suwayda.

Innanríkisráðuneyti Sýrlands tilkynnti síðar um vopnahléssamkomulag í Suwayda og Sheik Yousef Jarbou, trúarleiðtogi Drúsa, staðfesti að vopnahlé tæki strax gildi. Jarbou sagði að samkomulagið væri „til þess að stöðva algjörlega allar hernaðaraðgerðir í Suwayda af öllum aðilum“ og „til að innlima Suwayda að fullu inn í sýrlenska ríkið.“

Í gær var reyndar einnig tilkynnt um vopnahlé en fljót losnaði upp úr því.

Myndefni frá Sýrlandi sýndi fjórar sprengingar úr ísraelskum árásum sem skullu á sýrlensku herhöfuðstöðvarnar í Damaskus, sem leiddi til þess að stórir reykjarmekkir risu á loft. Svo lenti önnur loftárás nálægt forsetahöllinni.

Ísrael hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í Sýrlandi og segir hana til þess fallna að vernda drúsaminnihlutann í Sýrlandi, sem Ísrael lítur á sem mögulegan bandamann og sem hefur tekið þátt í átökum við sýrlenska stjórnarherinn í Suwayda.

Samfélag Drúsa hefur þó sögulega séð ekki alltaf tekið íhlutun Ísraelsmanna fagnandi, að því er Al Jazeera greinir frá.

Utanríkisráðuneyti Sýrlands sakar Íraelsmenn um að kynda undir aukna spennu á svæðinu með árásum sínum. Ráðuneytið segir árás Ísraelsmanna til marks um gróft brot á alþjóðalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×