Fótbolti

Heimsmeistararnir stóðu heiðurs­vörð fyrir sviss­neska liðið í leiks­lok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisha Lehmann fer fyrir svissneska landsliðinu þegar liðið labbar í gegnum heiðursvörð Spánverja.
Alisha Lehmann fer fyrir svissneska landsliðinu þegar liðið labbar í gegnum heiðursvörð Spánverja. Getty/Alex Caparros

Spænska kvennalandsliðið sló Sviss út úr átta liða úrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta í gærkvöldi en eftir leik kom upp mjög óvanalegt atvik.

Spænska liðið vann leikinn 2-0 þrátt fyrir að hafa klikkað á tveimur vítaspyrnum í leiknum.

Evrópumótið hefur verið mikið ævintýri fyrir svissneska landsliðið sem komst í fyrsta sinn áfram í útsláttarkeppni EM.

Svissneska liðið barðist vel í leiknum í gær og gaf ekkert eftir. Gæði spænska liðsins komu í ljós að lokum og þær eru komnar í undanúrslitin.

Stuðningsmenn Sviss fjölmenntu á leikinn og studdu vel við bakið á sínum konum. Það tók spænska liðið 66 mínútur að skora fyrsta markið í leiknum.

Þetta var því mun erfiðari leikur fyrir spænska liðið en margir bjuggust við.

Svissnesku stuðningsmennirnir voru líka eins og tólfti maðurinn í þessum leik enda með frábæran stuðning allar níutíu mínúturnar.

Þau hættu því heldur ekkert í leikslok heldur hylltu svissneska liðið.

Svissnesku landsliðskonurnar voru út á velli fimmtán mínútum eftir leikinn og spænsku heimsmeistararnir stóðu heiðursvörð fyrir svissneska liðið þrátt fyrir að hafa unnið leikinn og slegið þær út. Ótrúlega sena sem hefur ekki sést fyrr og mun líklega ekki sjást aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×