Innlent

Gosmóðan liggur þétt yfir höfuð­borgar­svæðinu og við­kvæmir hvattir til að vara sig

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gosmóðan hefur legið þétt yfir Akureyri undanfarna daga.
Gosmóðan hefur legið þétt yfir Akureyri undanfarna daga. Axel Gunnarsson

Virkni eldgossins á Reykjanesskaga er mjög stöðug og búin að vera það frá í gærmorgun. Gosmóðan liggur þétt yfir suðvesturhorninu um þessar mundir og kemur hún ofan í þegar hlýtt og rakt loft.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands greinir frá þessu í samtali við fréttastofu. Hún segir enn gjósa í tveimur gígum við miðbik sprungunnar sem opnaðist 16. júlí.

Hún segir gosmóðuna talsverða og að hún sé aðallega bundin við landið suðvestanvert og að einhverju leyti sunnanvert. Búast megi við því að hún vari á meðan hægviðri er á landinu.

Móðan er að sögn Jóhönnu blámóða sem er gömul gasmengun sem búin er að hvarfast og því mælist hún ekki beint á mælum Umhverfis- og orkustofnunar. Til séu leiðir til að mæla hana en erfitt sé að segja til um hve þétt hún er.

Hins vegar sé bláleit móðan vel greinanleg með sjón- og lyktarskyninu, sérstaklega í dagrenningu. Augun og nefið eru því bestu mælitæki fólks sérstaklega úti á landi þar sem minna er um loftgæðamæla.

Fólk er hvatt til að hafa varann á þegar móðan er þétt eins og á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í fyrramálið. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á suðvesturhorninu og víðar á vefsíðunni loftgæði.is

Jóhanna hvetur viðkvæma til að fara varlega og ekki reyna of mikið á sig utandyra á meðan blámóðan liggur yfir borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×