Innlent

Einn fluttur á slysa­deild eftir að eldur kviknaði við Tryggva­götu

Agnar Már Másson skrifar
Allar stöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út vegna eldsins sem tilkynnt var um klukkan fimm.
Allar stöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út vegna eldsins sem tilkynnt var um klukkan fimm. Aðsend

Slökkviliðið var kallað út nótt eftir að eldur kviknaði í íbúð við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur. Einn var fluttur til skoðunar á slysadeild en sá er ekki þungt haldinn. Gert er ráð fyrir miklu tjóni.

Davíð Friðjónsson varðstjóri segir í samtali við fréttastofu að slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hafi útkallið hafi borist um klukkan klukkan fimm í morgun. 

Einn hafi verið í íbúðinni þar sem eldurinn varð, sem er á efstu hæð í þriggja hæða húsi við Tryggvagötu, en hann hafi þegar komið sér út þegar slökkvilið bar að garði. Nærliggjandi íbúðir voru einnig rýmdar.

Lögregla lokaði fyrir umferð meðan slökkviaðgerðir stóðu yfir.Aðsend

„Ég get ímyndað mér töluvert tjón á íbúðinni en ég veit það ekki,“ segir Davíð en hann kveðst ekki vita nákvæmlega hvar eldurinn kom upp en lögregla rannsakar eldsupptök.

Hann segir að einn hafi verið fluttur á slysadeild til að fara í skoðun vegna hugsanlegrar reykeitrunar. Hann hafi ekki verið þungt haldinn.

Nú er búið að reykræsta, segir Davíð, og nú sé unnið að því að hreinsa upp vatn í íbúðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×