Enski boltinn

Wirtz með fyrsta markið sitt fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz er kominn með sitt fyrsta mark fyrir Liverpool og það leit dagsins ljós á japanskri grundu.
Florian Wirtz er kominn með sitt fyrsta mark fyrir Liverpool og það leit dagsins ljós á japanskri grundu. Getty/Andrew Powell

Florian Wirtz opnaði markareikning sinn hjá Liverpool í dag þegar liðið vann 3-1 endurkomusigur í æfingarleik á móti japanska félaginu Yokohama F.Marinos.

Liverpool er í æfingaferð í Asíu en í henni eru margir nýir leikmenn liðsins að stíga sín fyrstu spor.

Yokohama liðið komst yfir í 1-0 á 55. mínútu en Wirtz jafnaði sjö mínútum síðar. Hinn átján ára gamli Trey Nyoni kom Liverpool síðan yfir eftir undirbúning frá Jeremie Frimpong en það liðu bara fimm mínútur á milli markanna.

Hugo Ekitike lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og skoraði næstum því með hælnum í fyrri hálfleik. Hann fór síðan af velli fyrir Darwin Nunez í hálfleik þegar enn var markalaust.

Nunez var fljótur að koma sér í færi en klúðraði því eins og svo oft áður í Liverpool búningnum.

Curtis Jones byrjaði sóknina sem skilaði jöfnunarmarki Wirtz en stoðsendinguna átti Mohamed Salah. Wirtz var yfirvegaður og afgreiddi boltann sannfærandi í netið.

Markið kom stuttu eftir að Wataru Endo fékk fyrirliðabandið frá Virgil van Dijk þegar Hollendingurinn fór af velli en japönsku áhorfendurnir voru einstaklega ánægðir með það.

Markið hjá Nyoni var virkilega flott afgreiðsla en hann var þá nýkominn inn á sem varamaður.

Annar bráðefnilegur leikmaður, Rio Ngumoha, skoraði þriðja markið á 87. mínútu. Hann er ekki orðinn sautján ára gamall þótt það styttist í það. Ngumoha var þarna með mjög flott mark, fékk boltann við miðlínuna, keyrði á vörnina og skoraði frá vítateigslínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×