Enski boltinn

Eig­endur Liver­pool eyða meira í Isak en í að kaupa fót­boltafélag í Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak í leik með Newcastle United en hann vill komast frá félaginu og helst til Liverpool.
Alexander Isak í leik með Newcastle United en hann vill komast frá félaginu og helst til Liverpool. Getty/Visionhaus

Eigendur Liverpool hafa heldur betur verið til að eyða peningum í nýja leikmenn í sumar og þeir eru ekki hættir.

Eftir öll kaupin þá ætlar Liverpool einnig að reyna að kaupa Alexander Isak frá Newcastle.

Isak er sagður hafa náð samkomulagi um kaup og kjör við Liverpool, Svíinn vill fara frá Newcastle og næst á dagskrá er að ná saman um kaupverð.

Talið er að Isak gæti kostað meira en 120 milljónir punda og sumir hafa nefnt töluna 150 milljónir punda en það er nokkuð ljóst að hann verður dýrasti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Þetta eru rosalegar upphæðir en 120 milljónir punda eru tuttugu milljarðar í íslenskum krónum.

Þetta eru samt ekki einu kaupin sem eigendur Liverpool eru að velta fyrir sér þessa dagana.

Fenway Sports Group fjárfestingafélagið er einnig að reyna að kaupa spænska úrvalsdeildarfélagið Getafe CF sem er oft nefnt þriðja Madridarliðið.

Getafe endaði í þrettánda sæti af tuttugu liðum í spænsku deildinni á síðustu leiktíð.

Það er talið að Getafe sé í boði fyrir hundrað milljónir punda eða sextán og hálfan milljarð.

Svo gæti því farið að eigendur Liverpool eyði mun meiru í Isak en í það að kaupa þetta spænska félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×