Enski boltinn

Paquetá hreinsaður af á­sökunum um veðmála­svindl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lucas Paquetá fer ekki í lífstíðarbann.
Lucas Paquetá fer ekki í lífstíðarbann. EPA-EFE/ISABEL INFANTES

Lucas Paquetá, miðjumaður West Ham United í ensku úrvalsdeildinni og brasilíska landsliðsins, hefur verið hreinsaður af ásökunum sínum um veðmálasvindl.

Hinn 27 ára gamli Paquetá var hreinsaður af ásökunum fyrir brot á veðmálareglum enska sambandsins fyrr í dag þann 31. júlí. Um var að ræða tveggja ára rannsókn vegna undarlegra veðmál a sem höfðu átt sér stað í kringum áminningar sem Paquetá fékk í leikjum með West Ham.

Eftir óháða rannsókn kom í ljós að ekki væri hægt að sanna að Paquetá væri sekur og hann því hreinsaður af ásökunum.

Rannsóknin gerði það að verkum að möguleg vistaskipti Paquetá til Manchester City féllu upp fyrir. Hann hélt þó áfram að spila fyrir West Ham og Brasilíu.

„Frá fyrsta degi hef ég haldið fram sakleysi mínu er kemur að þessum alvarlegu ásökunum. Ég get ekki sagt neitt meira á þessari stundu en vil þó segja hversu þakklátur ég er Guði og að ég get ekki beðið eftir að spila fótbolta á ný með bros á vör,“ sagði leikmaðurinn eftir að niðurstaðan var ljós.

Þá þakkaði Paquetá eiginkonu sinni, West Ham, stuðningsfólki West Ham, fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn.

Í yfirlýsingu frá enska sambandinu segir að þó Paquetá hafi ekki verið fundinn sekur um brot á veðmálareglum hafi hann verið fundin sekur um að vinna ekki nægilega vel með sambandinu. Enn á eftir að ákvarða refsingu en líklegast er að leikmaðurinn verði sektaður vegna þessa.

Hefði hann verið fundinn sekur um brot á regluverki enska sambandsins hefði það viljað dæma leikmanninn í lífstíðarbann.

The Guardian greinir frá að enska knattspyrnusambandið mun ekki tjá sig frekar um málið fyrr en það fær að vita refsingu leikmannsins. Reikna má með að hún berist í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×