Erlent

Að bugast á hálf nöktum ferða­mönnum og beita sektum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Les Sables-d'Olonne, vinsælum strandbæ í Frakklandi.
Frá Les Sables-d'Olonne, vinsælum strandbæ í Frakklandi. Getty/Gazeau J/Andia

Á hverju sumri fyllist strandbærinn Les Sables d‘Olonne á vesturströnd Frakklands af ferðamönnum, sem flestir eru franskir, en þeir þykja gjarnir, jafnvel of gjarnir, á það að ganga um bæinn á sundfötum sínum eða berir að ofan.

Íbúar hafa fengið nóg og eru byrjaðir að beita sektum.

Ráðamenn og íbúar í bænum Les Sables d’Olonne í Frakklandi hafa beðið ferðamenn um að sýna hófsemi í bænum.

„Smá stilling, gerið það,“ skrifaði Yannick Moreau, bæjarstjóri, á samfélagsmiðla í síðustu viku. Tilefnið var að gerðar hafa verið breytingar á reglum bæjarins og verður fólk nú sektað fyrir að ganga nakið eða á sundfötum um götur og verslanir bæjarins.

„Þetta er spurning um virðingu við íbúa Sables sem vilja ekki að fólk gangi hálf nakið um bæinn. Þetta er líka spurning um hreinlæti í mörkuðum, verslunum og á götum okkar.“

Bæjarstjórinn sagði fólki frjálst að bera sig á ellefu kílómetra langri strandlengju bæjarins. Ein baðströndin er nektarströnd og þar er því eitthvað fyrir alla.

Í viðtali við New York Times sagði Moreau að þessi tilhneiging ferðamanna að spóka sig fáklæddir um bæinn hefði færst í aukana á undanförnum árum. Þeir færu af ströndunum í sundfötum sínum og gengu um bæinn og færu inn í matvöruverslanir og inn á veitingastaði svo gott sem berir.

„Ef þú ferð inn í verslun til að kaupa mat, ávexti, grænmeti og kjöt, getur þú ekki verið hálf nakinn svo hár falla á grænmetið. Þetta er spurning um velsæmi.“

Sambærilegar reglur hafa litið dagsins ljós víðsvegar um Evrópu á undanförnum árum. Það á við staði á Spáni, Ítalíu, Króatíu og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×