Fótbolti

Þrjár þjóðir upp fyrir Ís­land á FIFA listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís jane Jónsdóttir og félagar hennar í íslenska landsliðinu náðu ekki að vinna leik á EM og eru á niðurleið á heimslistanum.
Sveindís jane Jónsdóttir og félagar hennar í íslenska landsliðinu náðu ekki að vinna leik á EM og eru á niðurleið á heimslistanum. Getty/Maja Hitij

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta féll niður um þrjú sæti þegar nýjasti styrkleikalisti Alþjóða knattspyrnusambandsins var opinberaður í dag.

Íslenska liðið er nú í sautjánda sæti en var áður í því fjórtánda. Ísland missti Noreg, Kína og Ástralíu upp fyrir sig á listanum.

Íslenska landsliðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á Evrópumótinu í Sviss í síðasta mánuði en vann Serbíu í vináttulandsleik rétt fyrir mótið.

Íslensku stelpurnar hafa fallið niður um fjögur sæti síðan í mars þegar liðið sat í þrettánda sæti listans.

Spánn komst upp fyrir Bandaríkin og er spænska liðið nú í efsta sæti heimslistans. Svíar fóru upp um þrjú sæti og í þriðja sætið en Evrópumeistarar Englands verða að sætta sig við fjórða sætið.  

Þjóðverjar eru í fimmta sætið en Frakkar hækkuðu sig um fjögur sæti og eru nú í sjötta sæti.

Ísland og Brasilía eru einu landsliðin meðal þeirra fjörutíu hæstu í heiminum sem lækka sig um þrjú sæti eða meira.  Brasilía vann Suðurameríkukeppni landsliða en datt samt niður í sjöunda sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×