Skoðun

Ekkert ævin­týri fyrir mongólsku hestana

María Lilja Tryggvadóttir skrifar

Nýverið hefur verið fjallað um þátttöku hestakonu í erlendri kappreið sem ber yfirskriftina The Mongol Derby og kynnt sem krefjandi ævintýri á hálfvilltum hestum. Kappreiðin fer fram í Mongólíu og gengur út á að keppendur fari eins hratt og hægt er 1.000 kílómetra á hestbaki.

Keppnin er á vegum bresks fyrirtækis og er krefjandi fyrir keppendur, þeir geti lent í ýmsum hremmingum eins og að detta af baki, geti þjáðst af vökvaskorti og geti jafnvel slasast. En hvað með hestana sem eru notaðir í þessari keppni? Hvað þurfa þeir að ganga í gegnum í kappreið sem haldin er í landi með enga dýravelferðarlöggjöf?

Lítið tamin hross fara 40 km leið

Hver hestur er látinn fara um 40 km dagleið, í allt að 30 stiga hita, á stökki eða brokki en um er að ræða keppni í tíma. Mongólsku hestarnir eru yfirleitt lítið tamdir og eru því ekki vanir að bera knapa og hvað þá í svo langan tíma í krefjandi aðstæðum. Í sumum tilfellum berjast hestarnir á móti þegar knaparnir fara á bak þeim þar sem þeir eru lítið tamdir.

Hestarnir eru þá þvingaðir til að bera knapana sem er mjög streituvaldandi og slík meðferð er ekki í samræmi við hestvæna nálgun. Álagið sem er sett á þessa hesta er því gríðarlega mikið bæði líkamlega og andlega og öllu ólíkt því sem gerist hér á landi í hestaferðum. Af myndum af dæma þá sést vel að hestarnir bera beislin illa og jafnvel séu notaðir horaðir hestar í keppninni.

Velferð hrossanna virt að vettugi

Það er dapurlegt að sjá að svona keppni fari fram árið 2025. Þetta er ekkert ævintýri fyrir mongólsku hrossin þar sem velferð þeirra er virt að vettugi. Keppni með lítið tamin og lítið þjálfuð hross gæti ekki verið haldin hér á landi eða í okkar nágrannalöndum og því er vert að velta því fyrir sér hvort hún sé haldin Mongólíu einmitt til að forðast dýraverndarlöggjöfina?

Höfundur er stjórnarmaður í Dýraverndarsambandi Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×