Erlent

Grinda­vík fær nafna í smástirna­beltinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Smástirnið Grindavík í smástirnabeltinu er í um 345 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni.
Smástirnið Grindavík í smástirnabeltinu er í um 345 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni. Iceland at Night

Samband stjarnfræðinga sem heldur utan um örnefni í sólkerfinu hefur gefið hnullungi í smástirnabeltinu á millis Mars og Júpíters nafnið Grindavík. Smástirnið er annað fyrirbærið í sólkerfinu, utan jarðarinnar, sem er kennt við bæinn á Reykjanesi.

Smástirnið fannst árið 1999 en fékk aðeins tímabundið heiti. Alþjóðasamband stjarnfræðinga samþykkti að gefa því nafnið (24090) Grindavík í ágúst, að því er kemur fram í grein á vefnum Iceland at Night. Það var gert eftir að Grindavík komst í heimsfréttirnar vegna hrinu eldgosa sem leiddi til þess að bærinn var rýmdur.

Talið er að (24090) Grindavík sé um þrír kílómetrar og breidd og úr einhvers konar blöndu bergs og málma. Það er í smástirnabeltinu á milli Mars og Júpíters, um tvöfalt lengra frá sólinni en jörðin. Smástirnið ferðast um sólina á rúmum þremur og hálfu ári.

Nokkur fjöldi fyrirbæra í sólkerfinu ber íslensk örnefni eða eru kennd við Íslendinga. Þannig er til dæmis um tólf kílómetra breiður gígur á norðurhveli Mars sem ber nafn Grindavíkur. Á Merkúríusi, minnstu og innstu reikistjörnu sólkerfisins, eru gígar sem eru kenndir við íslensku listakonurnar Júlíönu Sveinsdóttur og Nínu Tryggvadóttur, sagnaritaranna Snorra Sturluson og Nóbelsskáldið Halldór Laxness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×