Skoðun

Ís­lenzkir sam­bands­ríkis­sinnar

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Frá því skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafa regnhlífarsamtökin European Movement International unnið ötullega að lokamarkmiðinu með samrunanum innan Evrópusambandsins og forvera þess allt frá upphafi að til verði að lokum evrópskt sambandsríki. Regnhlífarsamtökin samanstanda af samtökum frá flestum Evrópuríkjum og þar á meðal frá Íslandi en Evrópuhreyfingin er aðili að þeim líkt og eldri samtök íslenzkra Evrópusambandssinna voru áður.

Til að mynda kom þannig fram í Schuman-yfirlýsingunni 1950, sem markar upphaf Evrópusambandsins eins og við þekkjum það í dag, að fyrsta skrefið á þeirri vegferð væri að koma stál- og kolaframleiðslu Evrópuríkja undir eina yfirþjóðlega stjórn en lokamarkmiðið evrópskt sambandsríki. Síðan hefur sambandið jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis. Nú síðast var til að mynda talað um áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar Þýzkalands.

Hér er einmitt lykilorðið „áframhaldandi þróun“ enda er Evrópusambandið í dag að stóru leyti þegar orðið federalískt og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Þannig eru flestar helztu stofnanir sambandsins federalískar í eðli sínu. Hrein leitun hefur enda verið að forystumönnum Evrópusambandsins og ríkja þess á liðnum árum sem ekki hafa verið yfirlýstir stuðningsmenn lokamarkmiðsins. Þar á meðal allir forsetar framkvæmdastjórnar sambandsins undanfarna áratugi.

Með öðrum orðum er Evrópuhreyfingin ljóslega samtök íslenzkra sambandsríkissinna sem vilja að Ísland verði hluti evrópsks sambandsríkis. Annars væri hreyfingin varla aðili að regnhlífarsamtökum evrópskra sambandsríkissinna. Hver þróunin hefur verið innan Evrópusambandsins og hvert hún stefnir er annars lykilatriði þegar rætt er um það hvort rétt væri að Ísland yrði hluti þess. Eins er auðvitað gagnlegt að vita hvers konar félagsskapur Evrópuhreyfingin er í raun.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×