Erlent

Stað­festa hungur­sneyð á Gasa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að um sé að ræða manngerða hörmung.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að um sé að ræða manngerða hörmung. EPA

Sameinuðu þjóðirnar hafa formlega staðfest að hungursneyð ríkir á Gasaströndinni. Ísraelar neita því og segja að engin hungursneyð sé á Gasa.

Flokkun IPC (Integrated Food Security Phase Classificiation), sem fylgist með hungri út um allan heim, hefur verið færð upp á fimmta stig á Gasa. Fimmta stigið er efsta stig hungursneyðar en fleiri en fimm hundruð þúsund manns á Gasaströndinni séu í hættu á hungursneyð og dauða.

Í 59 blaðsíðna skýrslu um ástandið segir að það sé enginn vafi sé á að tafarlaus og stórtæk viðbrögð séu nauðsynleg.

„Öll frekari töf, jafnvel um daga, mun leiða til algjörlega óásættanlegrara aukningar á dánartíðni vegna hungursneyðar,“ segir í skýrslunni samkvæmt umfjöllun BBC. 

„Akkúrat þegar það virðast engin orð eftir til að lýsa helvítinu á Gasa þá hefur nýju orði verið bætt við, hungursneyð,“ sagði Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Hann segir málið ekki vera ráðgata heldur manngerða hörmung.

Ísraelar afneita hins vegar skýrslunni og segja niðurstöður hennar vera falskar og hlutdrægar. Þá segir talsmaður Ísraela skýrsluna vera falsaða til að styðja við falska herferð Hamas-liða. IPC hafi lækkað staðlaðana sína og heldur talsmaðurinn því fram að engin hungursneyð sé á Gasa.

Í kjölfar útgáfu skýrslunnar sendu Sameinuðu þjóðirnar frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þær kalla eftir óhindruðu aðgengi neyðaraðstoðar að Gasa. Ísraelsher hefur hingað til stjórnað magni hjálpargagna sem kemst yfir landamærin til Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×