Enski boltinn

Viljum ekki leik­menn sem vilja ekki Spurs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thomas Frank vildi ekki Eze, fyrst Eze vildi ekki Spurs.
Thomas Frank vildi ekki Eze, fyrst Eze vildi ekki Spurs. Getty/Luke Walker

Thomas Frank, stjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, segist ekki vilja fá leikmenn til liðsins sem ekki vilja koma. Tottenham horfði á eftir Eberechi Eze í hendur erkifjenda sinna og granna í Arsenal.

Frank sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag í aðdraganda leiks Tottenham um helgina við Manchester City. Hann var þar spurður út í Eze sem virtist á leið til Tottenham, þar til Arsenal steig inn.

„Almennt vil ég ekki fá neina leikmenn sem vilja sjálfir ekki koma til félagsins og hafa þetta frábæra merki á bringunni. Við viljum þá ekki hér og ég er viss um að stuðningsmenn félagsins eru því sammála,“ sagði Frank á blaðamannafundi í dag.

Tottenham vann góðan 3-0 sigur á Burnley í fyrstu umferð deildarinnar en liðsins bíður strembið verkefni er það sækir City heim á Etihad-völlinn klukkan 11:30 á morgun.

Liðið reyndi að fá sóknartengiliðinn Morgan Gibbs-White í sumar en sá framlengdi við Nottingham Forest. Eze var næstur á listanum en það gekk ekki heldur. Ofan á það meiddist James Maddison, sem leikur svipaða stöðu á vellinum, illa á dögunum og Spurs því fámennir framarlega á vellinum.

Tottenham leikur í Meistaradeild Evrópu í vetur vegna sigursins í Evrópudeildinni í sumar.

Leikur Manchester City og Tottenham er klukkan 11:30 á morgun og verður sýndur beint á Sýn Sport, líkt og allir aðrir leikir í ensku úrvalsdeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×