Enski boltinn

Gæti orðið fyrsti músliminn til að spila fyrir enska lands­liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Djed Spence gæti þreytt frumraun sína með enska landsliðinu á næstu dögum.
Djed Spence gæti þreytt frumraun sína með enska landsliðinu á næstu dögum. epa/TOLGA AKMEN

Tottenham-maðurinn Djed Spence gæti orðið fyrsti músliminn til að spila fyrir enska landsliðið í fótbolta.

Spence var valinn í enska landsliðið í fyrsta sinn fyrir leikina gegn Andorra og Serbíu í undankeppni HM 2026.

Komi Spence við sögu í leikjunum verður hann fyrsti músliminn til að spila fyrir enska landsliðið. Enska knattspyrnusambandið heldur ekki utan um hverrar trúar landsliðsmennirnir eru en enskir fjölmiðlar greina frá því að Spence verði fyrsti músliminn í sögu enska landsliðsins komi hann við sögu gegn Andorra eða Serbíu.

„Þetta er blessun. Þetta er bara frábært. Mér er orða vant,“ sagði Spence sem lék sex leiki fyrir U-21 árs landslið Englands á sínum tíma.

„Ég bið oft og þakka guði. Á mínum erfiðustu stundum hef ég alltaf trúað því að guð sé mér við hlið. Trúin er mér mikilvæg.“

Spence segist ekki finna fyrir aukinni pressu sökum þess að hann gæti brotið blað í sögu enska landsliðsins.

„Ég finn ekki fyrir pressu vegna ákveðinna hluta. Ég spila bara fótbolta með bros á vör, glaður og annað kemur af sjálfu sér,“ sagði Spence. „Ef ég get gert það getur þú það. Ekki bara krakkar sem eru múslimatrúar heldur allir krakkar, hverrar trúar sem þeir eru. Einsettu þér eitthvað og þú getur gert það.“

Hinn 25 ára Spence gekk í raðir Tottenham frá Middlesbrough fyrir þremur árum. Hann hefur þrívegis verið lánaður frá Spurs, til Rennes, Leeds United og Genoa. Á síðasta tímabili lék Spence 35 leiki í öllum keppnum fyrir Spurs.

England mætir Andorra á Villa Park á laugardaginn og Serbíu í Belgrad á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×