Körfubolti

Nýi ríkisborgarinn leiddi Pól­verja til sigurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Loyd var stigahæstur á vellinum þegar Pólland og Bosnía áttust við í sextán liða úrslitum á EM í körfubolta í dag.
Jordan Loyd var stigahæstur á vellinum þegar Pólland og Bosnía áttust við í sextán liða úrslitum á EM í körfubolta í dag. epa/TOMS KALNINS

Jordan Loyd fór mikinn þegar Pólland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í körfubolta karla með sigri á Bosníu, 80-72.

Loyd er 32 ára Bandaríkjamaður sem fékk pólskan ríkisborgararétt í síðasta mánuði, skömmu áður en EM hófst.

Loyd, sem var í meistaraliði Toronto Raptors í NBA-deildinni 2019, hefur farið mikinn á EM og skoraði meðal annars 26 stig í sigri Pólverja á Íslendingum, 84-75, um síðustu helgi.

Bosníumenn byrjuðu betur í leiknum í dag og voru níu stigum yfir eftir 1. leikhluta, 14-23. Í hálfleik leiddi Bosnía svo með fjórum stigum, 40-44.

Í seinni hálfleiknum hrökk bosníski sóknarleikurinn í baklás og liðið skoraði aðeins 28 stig. Pólland sigldi fram úr og vann að lokum átta stiga sigur, 80-72.

Loyd skoraði 28 stig fyrir pólska liðið og Mateusz Ponitka var með nítján stig og ellefu fráköst.

Jusuf Nurkic, leikmaður Utan Jazz í NBA, skoraði tuttugu stig fyrir Bosníu og tók sjö fráköst. John Roberson skoraði nítján stig.

Pólverjar mæta Tyrkjum í átta liða úrslitum mótsins á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×