Körfubolti

Ó­vænt þegar Georgía sló Frakk­land út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Georgía er þegar búin að ná sínum besta árangri á EM í sögunni.
Georgía er þegar búin að ná sínum besta árangri á EM í sögunni. epa/TOMS KALNINS

Georgía gerði sér lítið fyrir og vann Frakkland, 70-80, í sextán liða úrslitum á Evrópumóti karla í körfubolta í dag.

Afar óvænt úrslit litu dagsins ljós þegar Finnland sigraði Serbíu, 92-86, í sextán liða úrslitunum á EM í gær.

Úrslit leiksins í Ríga, sem er nýlokið, voru ekki síður óvænt en Georgíumenn höfðu fyrir leikinn aldrei komist í átta liða úrslit á EM. Á meðan urðu Frakkar í 2. sæti á síðasta Evrópumóti og unnu einnig til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum á heimavelli í fyrra.

Tornike Shengelia og Kamar Baldwin skoruðu 24 stig hvor fyrir georgíska liðið sem hitti úr tíu af átján þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Franska liðið, sem vann það íslenska í riðlakeppninni á EM, fann aftur á móti ekki taktinn í dag. Til marks um það geiguðu þrjátíu af 36 þriggja stiga skotum sem Frakkar tóku í leiknum.

Sylvian Fransisco skoraði fjórtán stig fyrir Frakkland, en hitti aðeins úr þremur af þrettán skotum sínum, og Guerschon Yabusele gerði tólf stig.

Á miðvikudaginn mætir Georgía Finnlandi í átta liða úrslitunum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×