Erlent

Gary Busey dæmdur fyrir kyn­ferðis­brot

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Gary Busey árið 2021.
Gary Busey árið 2021. Getty

Bandaríski stórleikarinn Gary Busey hefur verið dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni. Hann játaði að hafa gripið í og káfað á aðdáanda árið 2022, á svokallaðri hryllingssamkomu, fyrir aðdáendur hryllingsmynda og þess háttar.

Hinn 81 árs gamli leikari mætti fyrir dómara í Camden í Nýju Jersey í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hann var dæmdur sekur í einum ákærulið fyrir kynferðislega áreitni.

Hann játaði sök í ágúst, þegar hann sagðist hafa þuklað á rassi kvenmanns yfir fötum hennar, á meðan myndatökur stóðu yfir í tæpar tíu sekúndur.

Fleiri konur hafa sakað hann um áreitni eða óviðeigandi hegðun á hryllingssamkomunni Monster Mania Convention, sem haldin var í Fíladelfíu ríki.

Lögregluþjónar yfirheyrðu Busey á samkomunni vegna fjölmargra kvartana um óviðeigandi hegðun og til eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglunnar sem sýna yfirheyrslurnar.

Lögfræðingur Busey sagði að heilsa hans hefði hrakað mikið á undanförnum árum vegna aldurs, og hann væri með elliglöp og skerta hreyfigetu. Þetta gæti skýrt hegðun hans á samkomunni.

Niðurstaðan varð skilorðsbundinn dómur.

Busey hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, en hann er hvað þekktastur fyrir aðalhlutverk sitt í The Buddy Holly Story, og aukahlutverk í Lethal Weapon og Predator 2.

The daily beast




Fleiri fréttir

Sjá meira


×