Innlent

Ráð­herra til í um­ræðu um sumar­frí barna

Smári Jökull Jónsson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta-og barnamálaráðherra segist til í umræðuna.
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta-og barnamálaráðherra segist til í umræðuna. Vísir/Anton Brink

Borgarfulltrúar Viðreisnar lögðu fram tillögu í vikunni um að kanna hvort stytta ætti sumarfrí grunnskólabarna um allt að tvær vikur. Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra segist til í að taka umræðuna um málið.

„Þetta er bara skoðunarvert. Ég held það sé bæði með og á móti í því samhengi. Við erum búin að vera með sama kerfið mjög lengi um sumarfrí barna og í skólum. Ég er alveg til í umræðuna um þetta, spurning hvort meirihlutinn sé með eða á móti. Ég er á því að við eigum að skoða þetta,“ segir Guðmundur Ingi.

Í tillögu Viðreisnar kemur fram að grunnskólabörn séu í sumarfrí lengur en börn í Danmörku og Noregi og að langir frídagar geti meðal annars valdið rútínuleysi og skorti á félagslegri örvun. Langt sumarfrí þýði aukið álag á foreldra sem þurfi að kaupa dýr námskeið eða jafnvel taka frí frá vinnu. Í viðtali á RÚV sagði formaður Félags grunnskólakennaraað samfélagið þyrfti að taka umræðuna sem heild, breytingarnar myndu hafa í för með sér að orlof kennara, starfsfólks skóla og foreldra barna yrði aðþrengdara.

Lengir vetrarorlof á móti

Erlingur Sigvaldason, varaborgarfulltrúi Viðreisnar og frístundafulltrúi var flutningsmaður tillögunnar og hann sagði í viðtali í vikunni að með tillögunni vilji hann ekki ganga á rétt kennara til orlofs, heldur vilji hann stytta sumarfríið og lengra vetrarfríið á móti.

Hann sagðist leggja fram tillöguna því hann hafi áhyggjur af félagslegri einangrun barna.

„Það er bærilegra fyrir ungmenni sem einangra sig félagslega að taka styttri skorpur því inni í skólastarfinu er markviss vinna með þessi börn að eiga sér stað og hún er sett á pásu í langan tíma yfir sumarmánuðina og þetta myndi hafa góð áhrif á þessa markvissu vinnu með þessum félagslega einangruðu ungmennum því það er faraldur einmanaleika á íslandi og við sjáum það á rannsóknum og greiningum að vanlíðan er að aukast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×