Sport

Börnin mikil­vægari en NFL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavien Howard er hættur í NFL deildinni og það á miðju tímabili. Ástæðan er að hann vill setja fjölskylduna og börnin sín í fyrsta sætið.
Xavien Howard er hættur í NFL deildinni og það á miðju tímabili. Ástæðan er að hann vill setja fjölskylduna og börnin sín í fyrsta sætið. @iamxavienhoward

Xavien Howard tilkynnti óvænt í gær að hann væri hættur að spila í NFL deildinni.

Þessi tilkynning hans kemur á miðju tímabili en hann lék með liði Indianapolis Colts.

Howard samdi við Colts fyrir þetta tímabil en náði bara að spila fjóra leiki með liðinu áður en hann tók þessa stóru ákvörðun.

Hinn 32 ára gamli Howard kom til baka í NFL deildina eftir ársfjarveru en hann var á sínum tíma einn fremsti varnarmaður deildarinnar.

Howard fékk á sig mikla gagnrýni eftir frammistöðu sína á móti Los Angeles Rams um síðustu helgi þar sem útherjinn Puka Nacua fór illa með hann.

Howard tilkynnti forráðamönnum Colts á miðvikudaginn að hann ætlaði að segja þetta gott og skórnir væru á leiðinni upp á hillu.

Hann skrifaði pistil á samfélagsmiðla þar sem hann sagði að draumur hans væri nú breyttur og að hann væri ekki lengur tilbúinn að setja fótboltann framar en fjölskyldu sína.

„Ég hef lokið tilgangi mínum í þessari íþrótt. Börnin mín eru nú mér mikilvægari en fótboltinn,“ skrifaði Howard.

„Ég átti andskoti góðan feril og það breytir engu þótt að hann endi á undarlegan hátt. Ég er sáttur með það því í fyrsta sinn er ég að setja fjölskyldu mína í fyrsta sætið. Ég er stoltur og spenntur með þá ákvörðun mína,“ skrifaði Howard.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×