Innlent

Á­greiningur við ríkis­starfs­menn kostaði 642 milljónir á tíu árum

Árni Sæberg skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Á árunum 2015 til 2024 greiddi ríkið 437 milljónir króna í bætur til einstaklinga í kjölfar úrskurða eða dóma vegna ágreinings um starfsmannahald ríkisins í alls 105 málum. Bætur, vextir og annar kostnaður nemur 642 milljónum króna á tímabilinu.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. 

Þar segir að á tímabilinu hafi alls 437 milljónir króna verið greiddar í bætur og tæplega 87,8 milljónir króna í vexti. Þannig hafi 525 milljónir króna runnið til ósáttra ríkisstarfsmanna.

134 milljónir í málskostnað

Þá hafi 102,5 milljónir króna verið greiddar í málskostnað, 378 þúsund krónur í útlagðan kostnað og 14,3 milljónir króna í gjafsókn

Loks segir að kostnaður embættis ríkislögmanns vegna útvistunar slíkra mála á þeim tíma sem fyrirspurnin nær til hafi alls numið 17 milljónum króna. Þá er ótalinn annar kostnaður embættisins vegna reksturs slíkra mála en embættið tekur ekki saman kostnað við rekstur einstakra mála sem starfsmenn þess flytja.

Uppsagnir langdýrastar

Í svarinu segir að 55 málanna tengist uppsögnum eða brottrekstri opinberra starfsmanna og kostnaður af þeim nemi alls 438 milljónum króna.

Fjörutíu mál tengist einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum og kostnaður af þeim nemi alls 142 milljónum króna.

Loks segir að tíu mál snúi að ólögmætum ráðningum og kostnaður af þeim nemi alls 62 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×