Skoðun

Frelsi fylgir á­byrgð

Eiríkur Björn Björgvinsson skrifar

Frelsi á Íslandi á sér djúpar rætur og er óaðskiljanlegur þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Frá landnámsöld til okkar tíma hefur hugmyndin um frelsi þróast og það er margt í sögu Íslands sem hefur mótað afstöðu Íslendinga til frelsis. Frelsið endurspeglast m.a. í lýðræðishefðum, réttindum einstaklinga og samfélagslegu sjálfstæði. 

Það hefur verið afar áhugavert að fylgjast með umræðu um frelsi á Íslandi síðustu vikur, jafnvel mánuði og ár. Umræðu sem að einhverju leyti litast af umræðu og umfjöllun um frelsi í öðrum löndum. 

Að mínu mati eru of margir sem taka þátt í umræðunni um frelsi ofur viðkvæmir fyrir skoðunum annarra og móðgast oft á tíðum yfir orðræðunni. 

Þetta á ekki síst við um þá sem eru hvað dómharðastir og nýta sér tjáningarfrelsið til að flokka fólk og setja það á bása. Vilja skilgreina fólk t.d. eftir trú, samfélagsstöðu, skautun í stjórnmálum eða kynvitund. 

Það er að mínu mati mikilvægt að gæta að jafnvæginu milli réttinda til að tjá skoðanir sínar og ábyrgðarinnar sem því fylgir, sérstaklega þegar túlka mætti framsetninguna sem hatursorðræðu og ærumeiðingar. 

Á Íslandi er tjáningarfrelsi verndað af stjórnarskránni, en það hafa líka verið sett í lög takmarkanir um tjáningu sem telst andstæð lögum, eins og um meiðyrði. En þjóðfélagsleg umræða litast oft af því hvar menn vilja draga mörkin. 

Við þekkjum öll umræðuna um samfélagsmiðla þar sem margir Íslendingar tjá sig frjálslega, en þar getur verið erfitt að draga mörk milli þess sem telst viðeigandi tjáning og þess sem getur brotið í bága við t.d. reglur um hatursorðræðu. 

Umræðan um frelsi mun örugglega halda áfram að þróast, sérstaklega í ljósi samfélagslegra breytinga og tækniþróunar. 

Mig langar með þessari grein óska þess að við sýnum ábyrgð þegar við tjáum okkur, sérstaklega um annað fólk. 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×