Skoðun

Flækjustig í skjóli ein­földunar

Kolbrún Georgsdóttir skrifar

Stjórnvöld hafa kynnt áform um að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og flytja verkefni þeirra til Matvælastofnunar og Umhverfis- og Orkustofnunar. Í kynningu er því haldið fram að með þessu sé verið að fækka stofnunum úr ellefu í tvær. Þessi framsetning er í besta falli villandi.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna er svæðisbundin stofnun sem má líta á sem eina heild með margar starfstöðvar um landið. Þessi svæðisskipting mun ekki breytast með fyrirhuguðum breytingum, ef miðað er við áformin sem kynnt hafa verið, en samkvæmt þeim er stefnt að því að starfstöðvar haldist áfram dreifðar um landið. Í dag hafa rekstraraðilar einn eftirlitsaðila innan síns svæðis, en verði breytingarnar að veruleika munu þeir hafa tvo eftirlitsaðila, sem dæmi, þá þurfa rekstraraðilar, eins og veitingastaðir, líkamsræktarstöðvar og leikskólar að eiga samskipti við tvær ríkisstofnanir, Matvælastofnun og Umhverfis- og Orkustofnun í staðinn fyrir Heilbrigðiseftirlit. Þetta er aukið skrifræði og meira flækjustig fyrir atvinnulífið, en ekki sú einföldun sem boðuð er, auk þess sem hætt er á að breytingar gætu komið niður á þeim mikilvægu verkefnum sem heilbrigðiseftirlitið sinnir.

Skortur á samráði og undirbúningi

Það sem veldur sérstökum áhyggjum er að samráð við heilbrigðiseftirlitin sjálf og sérfræðinga á sviðinu hefur ekki farið fram með fullnægjandi hætti. Ítrekaðar ábendingar fagfólks um að slíkar breytingar myndu flækja kerfið enn frekar hafa verið hunsaðar.

Tryggja þarf fagmennsku þegar verið er að gera kerfisbreytingar sem snerta bæði atvinnulíf og almenning, nauðsynlegt er að byggja á traustri greiningu og umræðu við alla hagaðila, ekki síst þá sem starfa á vettvangi. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki og ber það vott um skort á fagmennsku.

Engin kostnaðargreining

Engin heildstæð kostnaðargreining hefur farið fram. Óljóst er hvert fagfólk heilbrigðiseftirlitanna á að flytjast, hvaða tækjabúnað stofnanirnar þurfa að búa yfir, hver kostnaður við uppsetningu á nýjum starfstöðvum verður og hvað verður um starfsaðstöðu hringinn í kringum landið. Án slíkrar greiningar er óábyrgt að hefja breytingar af þessu tagi. Við þetta má bæta að engin greining hefur farið fram á þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga sinna sem eru yfirgripsmikil, né hvernig best sé að sinna þeim.

Endurtekin mistök stjórnvalda

Einföldun er eftirsóknarverð en vanda þarf til verka svo tilganginum sé náð. Áform stjórnvalda um að leggja niður heilbrigðiseftirlit minna óneitanlega á fyrri tilraunir til einföldunar sem hafa gengið illa. Gott dæmi er nýleg skráningareglugerð, þar sem hluti fyrirtækja, sem áður voru starfsleyfisskyld hjá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga (HES), var bætt við skráningarkerfi Umhverfis- og Orkustofnunar. Tilgangurinn var sagður sá að einfalda kerfið. Í framkvæmd reynist það hafa þveröfug áhrif, því HES er áfram að sinna eftirliti og úttektum á þessum sama hópi fyrirtækja. Fyrirtæki þurfa nú bæði að sækja um skráningu hjá Umhverfis- og Orkustofnun og mörg einnig að sækja um starfsleyfi hjá HES. Niðurstaðan er tvöfalt leyfisveitingakerfi sem veldur ruglingi og er óþjált í framkvæmd bæði fyrir fyrirtækin sjálf sem og eftirlitsaðila.

Enn frekar var flækjustigið aukið með ákvæði í nýrri reglugerð um hollustuhætti, sem kom út í júní 2024, þar sem mælt var fyrir um fjögurra vikna auglýsingaskyldu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru starfsleyfisskyld. HES hefur mótmælt þessu ákvæði harðlega. Auglýsingaskylda þessi hefur reynst bæði óþörf og íþyngjandi og hefur hún kallað fram ómarkvissar undantekningar. Sem dæmi fengu veitingamenn undanþágu frá reglunni með því að færa starfsemina úr flokki starfsleyfisskyldra fyrirtækja yfir í flokk skráningarskyldra (út frá hollustuháttalögum), í stað þess að afnema skylduna. Aðrir fyrirtækjaflokkar sátu þó eftir með óbreytta kvöð.

Þetta er dæmi um svokallaða „gullhúðun“; að stjórnvöld setji óþarfa kvaðir og reglur ofan á tilskipanir Evrópusambandsins. Í stað þess að létta á flóknum ferlum hafa stjórnvöld bætt við nýjum reglum sem gera kerfið óskilvirkt og flóknara fyrir alla sem starfa innan þess.

Almannahagsmunir í hættu

Áformin virðast aðeins ná til starfsleyfis- og skráningarskyldum fyrirtækja en heilbrigðiseftirlitin sinna auk þess fjölda samfélagslegra verkefna. Þau takast á við ýmis mál vegna kvartana og ábendinga frá almenningi t.d. vegna hávaða, óheilnæms húsnæðis, sóðaskapar og ólyktar, þá sinna þau vöktun strandlengjunnar, taka neysluvatnssýni, veita umsagnir til sveitarfélaga og til sýslumanna og sinna ýmsum verkefnum í samstarfi við lögreglu, vinnueftirlit og eldvarnareftirliti. Óljóst er hver mun bera ábyrgð á þessum verkefnum í framtíðinni.

Það er óásættanlegt að þessi þjónusta, sem snýr beint að lífsgæðum almennings, sé skilin eftir í óvissu.

Áskorun um vönduð vinnubrögð

Fyrirhugaðar breytingar á heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga fela ekki í sér einföldun, heldur auka skrifræði, tvöfalt leyfisveitinga- og eftirlitskerfi og þar með auka flækjustig. Þær eru kynntar án heildstæðrar greiningar á áhrifum, án kostnaðarmats og án raunverulegs samráðs við sérfræðinga eða sveitarfélög.

Skynsamlegt væri að ráðherra og Alþingi íhugi að stíga skref til baka áður en lengra er haldið og leiðrétti misheppnaðar breytingar á reglum. Nauðsynlegt er að leggja fram faglega úttekt sem tekur til verkefna, mannauðs, tækjabúnaðar, starfsaðstöðu og samfélagslegra áhrifa. Þá verður að tryggja raunverulegt samráð við sérfræðinga, heilbrigðiseftirlit og hagsmunaaðila. Að öðrum kosti eru almannahagsmunir, grunnþjónusta sveitarfélaga og atvinnulífið sjálft sett í óásættanlega óvissu sem gæti haft alvarlegar afleiðingar.

Heilbrigðiseftirlitin eru ekki jaðarstofnun sem hægt er að hagræða tilviljanakennt með stjórnsýslulegum tilskipunum. Þau eru lykilstofnanir sem standa vörð um almannaheill, vernda heilnæmt umhverfi og tryggja rétt borgaranna til heilbrigðs lífsumhverfis. Í þessu samhengi er nálægð við nærumhverfi mikilvægt.

Kallað er eftir ábyrgum vinnubrögðum. Alþingi og ráðherrar verða að endurmeta áformin, tryggja gagnsæi, fagleg vinnubrögð og eiga virkt samtal við þá sem hafa sérþekkingu á málaflokknum. Lýðheilsa og grunnþarfir almennings eru ekki tilraunaverkefni – þær eiga að vera í forgangi og þær krefjast vandaðra ákvarðana og ábyrgðar.

Höfundur er heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×