Lífið

„Draumar geta ræst“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Klaudia Lára Solecka er keppandi í Ungfrú Ísland Teen.
Klaudia Lára Solecka er keppandi í Ungfrú Ísland Teen.

„Það sem greinir mig frá öðrum keppendum er samspil jákvæðni, ástríðu fyrir dansi og forvitni gagnvart heiminum,“ segir Klaudia Lára Solecka ungfrú Keflavík og nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland Teen verður haldin í fyrsta skipti þann 21. október næstkomandi og fer fram í Gamla bíói. Keppendur eru þrjátíu talsins og eru á aldrinum 16 til 19 ára.

Lífið á Vísi ræðir við stúlkurnar sem keppast um titilinn Ungfrú Ísland Teen og fáum að kynnast þeim aðeins betur.


Fullt nafn: Klaudia Lára Solecka

Aldur: 16 ára

Starf eða skóli: Ég er í Fjölbrautaskólanum Suðurnesja.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfri þér í þremur orðum?

Ég myndi segja að ég sé samviskusöm, ákveðin og góðhjörtuð.

Hvað kæmi fólki mest á óvart að vita um þig? Ég hef æft dans síðan ég var lítil – og sérstaklega að ég hef æft samkvæmisdans.

Hver er fyrirmynd þín í lífinu? Mamma mín er mín stærsta fyrirmynd. Hún er yndisleg, góðhjörtuð og algjörlega einstök – langbest!

Hvað hefur mótað þig mest? Dansinn hefur mótað mig mest, þar sem ég hef æft hann frá því ég var sjö ára. Í gegnum dansinn hef ég lært að vinna markvisst að markmiðum, byggt upp sjálfstraust og fengið tækifæri til að tjá mig á skapandi hátt.Hann hefur kennt mér aga og úthald, og um leið gefið mér mikla gleði og orku sem hafa gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Hver er mesta áskorunin sem þú hefur þurft að takast á við, og hvernig komst þú í gegnum hana? Að glíma við mikinn kvíða. Ég komst í gegnum það með hjálp yndislegra foreldra og vina sem ég gat talað við. Ég leitaði mér einnig aðstoðar hjá sálfræðingi og lærði að stjórna kvíðanum í stað þess að leyfa honum að taka yfir líf mitt.

Hverju ertu stoltust af? Ég er stoltust af því að hafa orðið heimsmeistari í dansi – og að fá tækifæri til að taka þátt í Ungfrú Ísland Teen!

Hver er þín mesta gæfa í lífinu? Að eiga svo yndislega foreldra og vini sem styðja mig ótrúlega vel og eru alltaf til staðar fyrir mig.

Hvernig tekstu á við stress og álag? 

Ég tekst á við stress og álag með því að tala um tilfinningar mínar. Ef mér líður illa eða ég er undir miklu álagi finnst mér gott að ræða við einhvern sem ég treysti, eins og mömmu, pabba eða bestu vinkonu mína. Ég reyni líka að minna mig á að það er eðlilegt að finna fyrir stressi – það þýðir bara að manni er ekki sama.

Besta heilræði sem þú hefur fengið? Að gefast aldrei upp – allt er hægt, og draumar geta ræst!

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í? Sem betur fer hef ég ekki lent í neinu alvarlegu, en ég hef bæði fótbrotnað og handleggsbrotnað.

Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileika? Nei, því miður ekki – en ég væri alveg til í að eiga einn slíkan!

Hvað finnst þér heillandi í fari fólks? Ég heillast af fólki sem hefur jákvætt viðhorf, jafnvel þegar hlutirnir ganga ekki alveg eins og ætlað var.

En óheillandi? Mér finnst mjög óheillandi þegar fólk sýnir öðrum vanvirðingu, sérstaklega þeim sem geta ekki svarað fyrir sig.

Hver er þinn helsti ótti? Að verða einmana eða að missa einhvern mér nákominn.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? 

Ég sé mig ferðast mikið um heiminn og vonandi vera rík! Ég er ekki alveg viss hvað mig langar að verða í framtíðinni en mér finnst hugmyndin um að vinna sem módel mjög spennandi.

Hvaða tungumál talarðu? Ég tala íslensku, ensku og pólsku.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Acaí-skál – ég elska þær!

Hvaða lag tekur þú í karókí? LXS með Birni eða eitthvað með Justin Bieber!

Hver er frægasti einstaklingur sem þú hefur hitt? Ég hef hitt þó nokkra, en einn þeirra er Herra Hnetusmjör.

Hvort kýstu að skrifa skilaboð eða eiga samskipti við fólk í eigin persónu? Mér finnst miklu betra að eiga samskipti við fólk í eigin persónu.

Ef þú fengir tíu milljónir til umráða, hvað myndirðu gera við peningana? Ég myndi örugglega ferðast um heiminn og leggja restina í sparnað – það er bæði skynsamlegt og spennandi!

Hvað var það sem vakti áhuga þinn á keppninni? Mig hefur alltaf dreymt um að taka þátt í Ungfrú Ísland, og ég hef fylgst mikið með keppninni í gegnum árin. Þegar ég heyrði af Ungfrú Ísland Teen varð ég strax spennt og vissi að þetta væri tækifæri sem ég vildi nýta.

Hvað ert þú búin að læra í ferlinu? Ég hef lært heilmikið um það að koma fram og treysta sjálfri mér. Ég hef alltaf verið dálítið feimin, en þetta ferli hefur kennt mér mikið um jákvæðni, þakklæti og sjálfsöryggi. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að fá að taka þátt og fyrir öll tækifærin sem hafa fylgt þessu ævintýri.

Hvaða samfélagslegu málefni brennur þú fyrir? Ég brenn fyrir málefnum sem tengjast sjálfsöryggi og áhrifum samfélagsmiðla. Samfélagsmiðlar geta verið bæði skemmtilegir og hvetjandi en þeir geta líka haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan fólks. 

Mér finnst mikilvægt að efla umræðu um heilbrigða notkun og minna á að raunverulegt sjálfsöryggi kemur innan frá – ekki úr samanburði við aðra.

Hvaða kostum þarf Ungfrú Ísland Teen að búa yfir? Hún þarf að vera góð fyrirmynd, sýna virðingu, hafa sjálfstraust og – það mikilvægasta – vera hún sjálf.

Af hverju sækist þú eftir því að vera næsta Ungfrú Ísland Teen? Því ég tel mig geta verið góð fyrirmynd fyrir aðra og vil sýna að það er bæði skemmtilegt og gefandi að elta draumana sína. Mig langar að hvetja aðra til að trúa á sjálfa sig og fylgja hjartanu.

Hvað greinir þig frá öðrum keppendum? Það sem greinir mig frá öðrum keppendum er samspil jákvæðni, ástríðu fyrir dansi og forvitni gagnvart heiminum. Ég hef æft dans frá barnæsku, sem hefur kennt mér aga, sjálfstraust og gleði. Ég reyni alltaf að nálgast lífið með jákvæðu hugarfari, styðja aðra og læra af nýjum upplifunum. Ferðalög hafa einnig kennt mér að meta fjölbreytileika og tengjast fólki alls staðar að úr heiminum.

Hvert er stærsta vandamálið sem þín kynslóð stendur frammi fyrir? Ég held að stærsta vandamálið sem mín kynslóð stendur frammi fyrir séu áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd og andlega heilsu. Stöðugur samanburður við aðra getur haft neikvæð áhrif og valdið kvíða, þunglyndi og skorti á sjálfstrausti. 

Mér finnst mikilvægt að efla sjálfsöryggi og stuðla að heilbrigðri notkun samfélagsmiðla, þar sem fólk lærir að bera virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum.

Og hvernig mætti leysa það? Til að vinna gegn þessum áhrifum þurfum við að efla sjálfsöryggi, takmarka skjátíma og hvetja til opins samtals um líðan og tilfinningar. Með því getum við lært að nota samfélagsmiðla á jákvæðan, hvetjandi hátt – án þess að bera okkur stöðugt saman við aðra.

Hvað viltu segja við þá sem hafa neikvæða skoðun á fegurðarsamkeppnum? Mér finnst eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir, en fyrir mig snúast fegurðarsamkeppnir ekki bara um útlit. Þær eru tækifæri til að sýna sjálfsöryggi, ábyrgð og persónuleika – og til að vaxa sem manneskja. Ég tek þátt til að njóta ferlisins, læra af reynslunni og skapa skemmtilegar minningar, ekki til að keppa um fegurð eina og sér.


Tengdar fréttir

Þetta eru dómarar í Ungfrú Ísland Teen

Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland Teen fer fram í fyrsta sinn 21. október næstkomandi í Gamla Bíói. Þátttakendur eru 30 talsins og eru á aldrinum 16–19 ára. Keppnin verður í anda hefðbundinnar Ungfrú Ísland-keppni en með breyttum áherslum sem henta þessum aldurshópi.

Léttir að fá greininguna eftir langvarandi verki

„Ungfrú Ísland Teen þarf að búa yfir sjálfstrausti, góðum samskiptahæfileikum og jákvæðu viðhorfi. Hún ætti að vera fyrirmynd fyrir aðra og hafa metnað til að nota rödd sína til góðs,“ segir Elinborg Jóhanna Hrannarsdóttir, ungfrú Skarðsströnd og nemi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.