Skoðun

Endur­kaup í Grinda­vík: Fólk á rétt á raun­veru­legri mynd af hús­næði sínu

Hilmar Freyr Gunnarsson skrifar

Eftir áramamót munu fyrri eigendur íbúðarhúsnæðis í Grindavík fá tækifæri til að kaupa heimili sín til baka samkvæmt endurkaupaáætlun Þórkötlu fasteignafélags. Áætlunin, sem kynnt verður í byrjun árs 2026, hefur vekur von um að hægt verði að endurheimta eðlilegt líf í bænum eftir langvarandi óvissu vegna náttúruhamfara.

Þrátt fyrir góðan ásetning stjórnvalda og Þórkötlu, hef ég verulegar áhyggjur um ástand húsnæðis sem boðið verður til endurkaups. Hef verið mjög gagnrýnin á skýrslur og úttektir Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) sem í mörgum tilfellum endurspegla ekki raunverulegt ástand eigna eða kostnað við viðgerðir. Hef þvi til sönnunar ótal skýrslur sem mér voru sendar til skoðunar sem og ástandsmat sem gert var á mínu eigin húsi. Þar vantaði inn í t.d. ástand burðarvirkis sem var brotið og byrjað að halla.

Það er því brýnt að ástandsskoðun óháðs fagaðila verði gerð að skilyrði fyrir endurkaup, líkt og tíðkast í hefðbundnum fasteignaviðskiptum. Slík skoðun tryggir að kaupendur fái skýra og faglega mynd af ástandi eignarinnar, þar sem metið er meðal annars ástand burðarvirkis, raflagnir,vatns og frárennslislagnir og rakaskemmdir og einnig hvort eignin uppfylli lengur almennar kröfur mannvirkja og byggingareglugerðar og hollustuhætti.

Í ljósi þess að endurkaup eru ekki hefðbundin fasteignaviðskipti heldur hluti af opinberri endurreisnaráætlun, er enn mikilvægara að tryggja gagnsæi og traust. Fólk á ekki að þurfa að kaupa aftur heimili sem getur reynst óíbúðarhæft eða kostað verulegar fjárfestingar í viðgerðum. Ástandsskoðun er ekki bara tæki til að meta eign – hún er trygging fyrir réttlátri meðferð og upplýstri ákvörðun.

Það er von greinarhöfundar að stjórnvöld og Þórkatla taki þessi sjónarmið til greina og geri ástandsskoðun að ófrávíkjanlegum hluta endurkaupaferlisins. Grindvíkingar eiga skilið að snúa aftur heim með reisn – ekki með óvissu og óvæntum kostnaði.

Höfundur er byggingafræðingur og húsasmíðameistari.




Skoðun

Sjá meira


×