Innlent

„Ég tel ekki til­efni til að í­huga stöðu mína“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi. Vísir/Vilhelm

Ríkisendurskoðandi segir að engin formleg tilkynning hafi borist til embættisins frá starfsfólki um einelti, kynbundið eða kynferðislegt áreiti eða ofbeldi.  Hann myndi taka á slíkum málum. Hann harmar að innri mál embættisins séu til umfjöllunar í fjölmiðlum og hefur ekki íhugað stöðu sína.

Starfsmannamál Ríkisendurskoðunar hafa verið til umfjöllunar eftir að starfsmannakannanir og gögnum var komið til fjölmiðla í dag sem sýna afar neikvæða mynd af starfsmannamálum stofnunarinnar. Þar ber einna hæst að meira en einn af hverjum tíu starfsmönnum Ríkisendurskoðunar upplifði svokölluð EKKO-mál síðustu sex mánuðina á undan. EKKO- stendur fyrir einelti, kynferðislegt, kynbundið eða ofbeldi. Þá höfðu 41 prósent orðið vitni að slíku ofbeldi. 

Engar formlegar tilkynningar borist um EKKO

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir að engin formleg tilkynning hafi borist um EKKO- mál. Ekki sé hægt að bregðast við málum sem eru ekki tilkynnt. 

„Þegar kemur að þessum upplifunum starfsfólks sem er tilefni þessa fréttaflutnings finnst mér ástæða til að árétta að hér hafa engin EKKO mál- komið upp. Það var verið að mæla upplifanir starfsfólks í áhættukönnuninni sem um ræðir. Það hafa hins vegar engar formlegar tilkynningar borist til embættisins. Kæmu þær fram myndi ég taka þeim mjög alvarlega og koma þeim í viðeigandi farveg. Það er erfitt að taka á málum þegar engar formlegar upplýsingar liggja fyrir. Ég sem æðsti  yfirmaður sé um að allir fái réttláta málsmeðferð. En þegar um er að ræða óupplýstar upplifanir þá er ekki hægt að bregðast við. Þegar áhættumatið lá fyrir í september í fyrra þá settum við starfsmannamálin í ákveðinn farveg og höfum unnið markvisst að inngripum allar götur síðan,“ segir hann.

Starfsfólk hafi ekki ástæðu til að óttast

Aðspurður um hvort starfsfólk hætti mögulega ekki á að tilkynna um slík mál á formlegan hátt svarar Guðmundur: 

„Starfsfólk hefur enga ástæðu til að óttast að tilkynna slík mál, ég hef ekkert umburðarlyndi fyrir svona málum.“

Guðmundur segir að hann hafi gert talsverðar breytingar á embættinu frá því hann hóf störf þar árið 2022 í því skyni að bæta það.  

„Það hafa verið gerðar töluverðar breytingar á starfseminni frá því ég tók við og þær geta tekið á. En ég er sannfærður um að þær séu af hinu góða og muni styrkja embættið til framtíðar,“ segir hann. 

Guðmundur segir að gagnrýni á að hann hafi tekið að sér verkefni mannauðsstjóra byggi á misskilningi.

„Mannauðsstjóri er í fæðingarorlofi. Ríkisendurskoðandi er æðsti stjórnandi Ríkisendurskoðunar og allar ákvarðanir enda hjá honum. Meðan mannauðsstjóri er í fæðingarorlofi liggja verkefnin hjá mínu embætti og öðrum í stofnuninni,“ segir hann.

Guðmundur telur ekki tilefni til að íhuga stöðu sína. 

„Ég tel ekki tilefni til að íhuga stöðu mína. Ég harma að innri mál stofnunarinnar séu gerð að  fjölmiðlaumfjöllun og tel þá mynd sem þarna er dregin upp ekki raunsanna. Umfjöllunin er neikvæð fyrir starfsfólk og mitt verkefni að halda utan um það á tímum sem þessum. Samband mitt við starfsfólk er almennt mjög gott. Hér er afskaplega hæfur og góður mannauður sem mér þykir vænt um að fá tækifæri til að starfa með,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×