Enski boltinn

Carrick í einka­viðtali: Sigurinn á Anfield stór stund fyrir Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Michael Carrick veit hversu vel Harry Maguire og liðsfélögum hans leið eftir sigurinn gegn Liverpool á Anfield.
Michael Carrick veit hversu vel Harry Maguire og liðsfélögum hans leið eftir sigurinn gegn Liverpool á Anfield. Samsett/Vísir/Getty

Michael Carrick, fimmfaldur Englandsmeistari með Manchester United, segir að sigur síns gamla liðs gegn Liverpool á Anfield gæti hafa markað tímamót.

Þetta segir Carrick í viðtali við Kjartan Atla Kjartansson en brot úr viðtalinu má sjá hér að neðan.

Klippa: Carrick ræddi um stöðu Man. Utd í dag

United hefur nú unnið þrjá leiki í röð, gegn Sunderland, Liverpool og Brighton, og komist upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, stigi fyrir ofan Liverpool.

„Sigurinn gegn Liverpool var rosalegur og sennilega bestu úrslit sem liðið hefur náð í nokkurn tíma,“ segir Carrick.

„Það var stórkostlegt að sjá liðið vinna tvo leiki í röð og hafa betur á Anfield með þessum hætti. Manni finnst í dag eins og að þetta hafi verið stór stund og tíminn mun leiða í ljós hversu mikilvægt þetta var. En strax eftir leik leið manni eins og þetta væri stærra en einhver einn stakur sigur.

Liðið hefur byrjað nokkuð vel og er í ágætri stöðu. Liðið hefur rokkað upp og niður en vann Chelsea, spilaði ágætlega gegn Arsenal en átti í meiri erfiðleikum gegn City. Þeir sýndu svo gegn Liverpool að þeir geta aftur unnið stór lið. Núna þarf liðið að vinna í stöðugleika. En þessi byrjun er ekki slæm,“ segir Carrick.

Ein besta minningin er frá Anfield

Sjálfur man hann vel hve gaman er að fagna sigri gegn Liverpool á Anfield:

„Sem United-maður er þetta besti staðurinn til þess að vinna fótboltaleik á. Fyrsta skiptið sem ég gerði það með United var árið 2007 þegar John O‘Shea skoraði á 90. mínútu og við unnum 1-0. Enn þann dag í dag er það ein besta minningin mín, þó að ég hafi ekki átt neinn þátt í markinu og verið fyrir utan teiginn. Tilfinningin var bara þannig.

Þetta var svolítið annar tími því við vorum í baráttu um titilinn og enduðum á að vinna hann, svo það hafði áhrif. En þetta skiptir öllu máli fyrir stuðningsmennina og þó að nú hafi þetta ekki snúist um að vinna deildina þá er þetta svo mikilvægt á sinn hátt, og maður fann allar tilfinningarnar og ástríðuna,“ segir Carrick en rætt er við hann í spilaranum hér að ofan. Viðtalið í heild birtist á Vísi á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×