Lífið

Spenna á rafíþróttaæfingu fyrir eldri borgara

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Rafíþróttaæfingar fyrir eldri borgara eru haldnar í Egilshöll og var nóg um að vera þegar fréttastofa leit við.
Rafíþróttaæfingar fyrir eldri borgara eru haldnar í Egilshöll og var nóg um að vera þegar fréttastofa leit við. Vísir/Sigurjón

Hópur eldri borgarar hittist vikulega til að iðka rafíþróttir og er stemningin einstaklega góð á æfingum.

Æfingarnar eru frekar nýjar af nálinni en níu voru mættir þegar fréttastofa leit við í rafíþróttamiðstöðinni í Egilshöll í vikunni.

Áður en viðstaddir fóru í tölvurnar fór fram fræðsla um gervigreindina og umræður. Svo voru gerðar fingraæfingar og eftir það voru allir klárir í æfinguna sjálfa. 

Nokkrir fóru að tefla í tölvunum en aðrir að aka formúlubílum. Flestir höfðu gaman af og lifðu sig inn í leikina. 

„Þetta er svona mikil spenna og manni líður ágætlega þegar maður er í þessu,“ sagði Guðný Þorvaldsdóttir þegar við hana var rætt. 

„Þetta er bara góð æfing líka. Ég er með gigt í höndum og mér líkar vel að æfa puttana. Ég er öll að verða skökk.“ 

Þórir Viðarsson stýrir æfingunum og segir mikilvægt að liðka fingurna.Vísir/Sigurjón

Sá sem stýrir æfingunum er Þórir Viðarsson meðeigandi Next Level Gaming í Egilshöll.

„Þau eru náttúrulega flest ný í tölvum og tölvuleikjum og það tekur allt tíma en ég er með reynslu til tuttugu og fimm ára að spila þannig ég geri mitt besta til að aðstoða þau.“

Hann átti þó ekki sjálfur hugmyndina að æfingunum.

„Tengdamóðir mín hún kom með þessa hugmynd, fyndið að segja það, ástæðan fyrir því hún er alltaf í einhverju veseni sjálf með Internetið og svona og okkur datt þá í hug að koma með þau hingað.“

Spilaðir eru fjölbreyttir leikir á æfingum. Vísir/Sigurjón

Þrátt fyrir að vera mörg hver að takast á við nýja hluti voru allir á því að æfingarnar væru að gagnast þeim vel. Þá væri mikilvægt að taka þátt og einangra sig ekki.

„Það er svo gaman að leika sér. Þetta þjálfar hugann,“ sagði Grímkell Arnljótsson þegar rætt var við hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.