Lífið

Mótorhjólaði aftur í kringum hnöttinn: „Fólk er gott“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kristján ferðaðist í kringum jörðina á mótorhjóli árin 2014 og 15 en þá voru einungis tvö ár síðan hann settist í fyrsta sinn á mótorhjól. 
Kristján ferðaðist í kringum jörðina á mótorhjóli árin 2014 og 15 en þá voru einungis tvö ár síðan hann settist í fyrsta sinn á mótorhjól. 

Kristján Gíslason kerfisfræðingur og ævintýramaður lauk för sinni í kringum hnöttinn á mótorhjóli í dag. Tíu ár eru síðan hann varð fyrsti maðurinn til að mótorhjóla í kringum jörðina einn síns liðs. 

Frá þessu greinir Kristján á Facebook-síðu sinni þar sem hann hefur undanfarið deilt myndum og fréttum af ferðalaginu. Förinni lauk í München í Þýskalandi í kvöld. 

„Þetta var ein magnaðasta mótorhjólaferð sem ég hef farið á ævinni – ferð uppgötvunar á svo marga vegu. Enn og aftur er maður tekinn í landhelgi fullur fordóma sem engin innistæða er fyrir. Þannig hefur þessi ferð opnað skilningarvitin og fært mér enn frekari sönnun þess að við búum í yndislegum heimi,“ skrifar Kristján.

Hann fór að þessu sinni aðra leið en hann gerði fyrir tíu árum. Með færslunni fylgir myndband af leiðinni sem hann hjólaði. Ferðin hófst í Þýskalandi en Kristján hjólaði þaðan austur í gegnum Evrópu, Mið-Austurlöndin og Asíu. Þá hjólaði hann um Norður-Ameríku, lagði svo leið sína til Íslands og loks Evrópu en ferðinni lauk sem fyrr segir í München í Þýskalandi. 

„Það gæti komið mörgum á óvart, en aðalniðurstaða allra minna ferðalaga rúmast í þremur orðum: Fólk er gott,“ skrifar hann.

Þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis náðu tali a Kristjáni í júní þegar hann var staddur í Shanghaí í Kína. Viðfangsefni viðtalsins var ferðalag hans um Íran en Kristján lýsti mikilli góðvild og gestrisni Írana. Tilefnið voru átök Ísraela og Írana í júní, þar sem herir landanna gerðu loftárásir á víxl. 

Kristján var gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar í fyrra þar sem hann ræddi ferðalög sín um heiminn á einlægum nótum. 

Sjá einnig: Klökknar enn við tilhugsun um fjölskylduna sem bjargaði honum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.