Fótbolti

Messi laumaðist inn á leik­vang Barcelona og lét engan vita

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Messi gerði ekki boð á undan sér en var boðinn velkominn heim.
Messi gerði ekki boð á undan sér en var boðinn velkominn heim. instagram / @leomessi

Lionel Messi heimsótti Nývang, heimavöll Barcelona, í gærkvöldi og birti myndir af sér með tilfinningaríkum texta. Enginn háttsettur aðili hjá Barcelona vissi hins vegar af heimsókninni.

Messi er mættur til Spánar í verkefni með argentínska landsliðinu og ákvað að líta við á sínum gamla heimavelli í leiðinni. Hann lét ekki vita af heimsókninni en mætti með föruneyti sínu og smellti nokkrum myndum, sem hann birti á Instagram og skrifaði undir:

„Í gærkvöldi sneri ég aftur á stað sem ég sakna af öllu mínu hjarta. Hér var ég ótrúlega hamingjusamur, þúsund sinnum létuð þið mér líða eins og hamingjusamasta manni heims þegar ég var hér… Ég vona að einn daginn geti ég snúið aftur, ekki bara til að kveðja sem leikmaður, sem ég fékk aldrei tækifæri til að gera.“

Diario Sport segir frá því að enginn háttsettur aðili hjá Barcelona hafi vitað af heimsókninni, fyrr en Messi birti myndirnar á Instagram. Honum hafi verið hleypt inn á svæðið af verkamönnum sem vinna að endurnýjun Nývangs.

Félagið var þó fljótt að bregðast við og aðeins tveimur tímum eftir að Messi birti myndirnar hafði Barcelona deilt þeim og skrifað: „Velkominn heim.“

Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur líka viðrað hugmyndina nýlega um að halda kveðjuleik fyrir Messi.

„Þegar leikvangurinn er tilbúinn að taka við 105.000 áhorfendum væri það frábær leið til að vígja völlinn en það veltur auðvitað allt á honum [Messi]“ sagði forsetinn Laporta.

Messi fékk engan kveðjuleik fyrir Barcelona þegar hann neyddist til að yfirgefa félagið árið 2021 vegna fjárhagsvandræða. 

Hann er nú á leiðinni í æfingaleik gegn Angóla með argentínska landsliðinu, sem er búið að tryggja sér sæti á HM 2026. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×