Innlent

Verða með leið­togapróf­kjör 31. janúar

Atli Ísleifsson skrifar
Natan Kolbeinsson er formaður Viðreisnar í Reykjavík.
Natan Kolbeinsson er formaður Viðreisnar í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Kjörstjórn Viðreisnar í Reykjavík hefur ákveðið að kjördagur í leiðtogavali flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningarnar verði þann 31.janúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá flokknum segir að rétt til atkvæðagreiðslu í prófkjöri hafi allir félagar í Viðreisn, sextán ára og eldri og sem hafi lögheimili í Reykjavík. Þá þurfi þeir að hafa skráð sig í Viðreisn að minnsta kosti tveimur dögum fyrir upphaf prófkjörs.

Ljóst er að nýr oddviti mun leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í maí þar sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur þegar tilkynnt að hún sækist ekki eftir endurkjöri.

Í tilkynningunni er haft eftir Natani Kolbeinssyni, formanni Viðreisnar í Reykjavík, að hann sé spenntur fyrir komandi leiðtogavali. „Þetta er fyrsta skrefið í því að byggja upp lið sem mun tryggja Viðreisn í Reykjavík sigur í vor. Borgarbúar vilja sjá nýja tíma í borginni okkar og ætlum við okkur að svara því kalli,“ er haft eftir Natani.

Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við framboð eru Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, varaþingmaður og fyrrverandi ríkissáttasemjari, Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, og Jakob Birgisson, uppistandari og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×