Innlent

Til­finningar í þing­sal og Inga brosir hringinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
samsett-ingasaeland

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur á Alþingi í dag með atkvæðum þingmanna allra flokka á Alþingi nema Miðflokksins sem sátu hjá. Margir þingmenn stigu í pontu til að gera grein fyrir atkvæði sínu fulltrúar úr röðum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks fjölmenntu á þingpallana til að fylgjast með atkvæðagreiðslunni og fögnuðu þegar frumvarpið varð að lögum.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, komst við í pontu þingsins þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu en sjálf hefur hún lengi lagt áherslu á að málið verði að lögum. 

Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, lýsti því að flokkurinn kysi að sitja hjá, meðal annars á þeim forsendum að réttindin sem um ræði séu þegar tryggð í stjórnarskrá. „Vegna vanbúnings þessa máls fyrir þinginu þá því miður get ég ekki greitt þessu máli atkvæði, en leggst ekki gegn því. En því miður þykir mér það leitt að geta ekki stutt málið eins og það er úr garði gert,“ sagði Sigríður meðal annars.

Kallað eftir kostnaðarmati og flutningi aftur til ríkisins

Þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins studdu málið, en lýstu þó óánægju sinni með að ekki hafi verið framkvæmt kostnaðarmat vegna málsins líkt og sveitarfélögin hafi kallað eftir, en það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð á að veita helstu þjónustu við fatlað fólk.

Sjálfstæðismenn hörmuðu að ekki hafi verið fallist á breytingartillögu þeirra um að samningurinn yrði samþykktur með ákvæði um endurskoðun að tveimur árum liðnum. Þá hefur flokkurinn boðað þingsályktunartillögu strax í næstu viku þar sem lagt verði til að ábyrgð á málaflokki fatlaðs fólks verði aftur flutt til ríkisins frá sveitarfélögunum sem hafi takmarkaða burði til að sinna þeim skyldum sem þeim er falið. 

Gleðjast yfir því að baráttumál sé orðið að lögum

Líkt og áður segir var hópur fólks úr röðum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks mætt á þingpallana til að fylgjast með atkvæðagreiðslunni og fögnuðu þegar frumvarpið varð að lögum.

„Mér líður vel, ég er næstum því í tilfinningalegu uppnámi, þetta er búið að vera baráttumál Þroskahjálpar árum saman og við bara fögnum því mjög að loksins er þetta í höfn,“ segir Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, tekur í svipaðan streng. „Það má líka óska þingmönnum sem lögðu hart að sér að koma þessu máli í gegn innilega til hamingju, að standa með fötluðu fólki. Og nú erum við líka orðin fyrirmyndarþjóð fyrir aðrar Norðurlandaþjóðir þannig vonandi getum við fengið þau í lið með okkur líka,“ segir Alma.

Sjálf er Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, himinlifandi með áfangann. „Mér líður bara ótrúlega vel. Ég er breisk, ég er þakklát. Maður er ekki alveg búinn að lenda, þetta er búin að vera svo mikil barátta,“ segir Inga.

Það þarf væntanlega að tryggja líka að hægt sé að standa við það sem þarna er kveðið á um?

„Í rauninni er búið að tryggja öll þessi réttindi með stjórnarskránni okkar sem er æðst allra réttarheimilda. Þannig ég hef ekki áhyggjur af því og samskipti okkar, ríkis og sveitarfélaga, hafa farið mjög svo batnandi og við erum orðin mjög náin í öllum okkar samskiptum. Og ég efast ekki um það að við munum tryggja þau réttindi sem samningur Sameinuðu þjóðanna boðar hér í dag með lögfestingu,“ svarar Inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×