Viðskipti innlent

Fríður nýr mann­auðs- og gæða­stjóri Lyfja og heilsu

Atli Ísleifsson skrifar
Fríður Skeggjadóttir.
Fríður Skeggjadóttir. Lyf og heilsa

Fríður Skeggjadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðamála hjá Lyfja og heilsu.

Í tilkynningu segir að Fríður hafi áður starfað sem forstöðumaður í áhættustýringu Íslandsbanka og þar á undan hjá Vistor og GSK á Íslandi. Hún starfaði einnig í upphafi starfsferils hjá Lyf og heilsu sem lyfjafræðingur.

„Fríður er með M.Sc. gráðu í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun og verkefnastýringu þar sem hún hefur m.a. leitt stór innleiðinga- og úrbótaverkefni. Hún hefur sérfræðiþekkingu á sviði áhættustýringar, stjórnarhátta og gæðamála. Lyfjafræðileg þekking hennar mun þá nýtast sérstaklega vel í þeim umbreytingar- og úrbótaverkefnum sem eru framundan hjá félaginu,“ segir í tilkynningunni. 

Edda Hermannsdóttir er forstjóri Lyf og heilsu.

Haft er eftir Eddu Hermannsdóttur, forstjóra Lyfja og heilsu, að hún sé spennt að fá Fríði inn í stjórnendahóp Lyf og heilsu. „Framundan eru stór umbreytingar- og úrbótaverkefni þar sem við eflum hlutverk okkar í heilbrigðisþjónustu við viðskiptavini. Fríður þekkir fyrirtækið og viðfangsefnin vel og kemur með dýrmæta þekkingu, sem mun nýtast vel í þeirri vegferð sem er framundan,“ segir Edda.

Þá er haft eftir Fríði að hún sé spennt að hefja störf hjá Lyfjum og heilsu, taka þátt í að móta stefnu og leiða fyrirtækið inn í nýja tíma. 

„Apótek Lyf og heilsu eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og þar er lagður metnaður í að veita faglega og góða þjónustu í þágu viðskiptavina. Þá veitir það drifkraft og hvatningu að vita að á degi hverjum er unnið að því hjá Lyf og heilsu að bæta heilsu og lífsgæði fólks um allt land.Það er virkilega góð tilfinning að snúa aftur í lyfjageirann eftir lærdómsríkan tíma í fjármálaheiminum. Ég er full tilhlökkunar að takast á við mikilvæg verkefni með starfsfólki félagsins,“ segir Fríður.

Í umbreytingarferli

Í tilkynningunni segir að í lok árs 2024 hafi verið tilkynnt um kaup AF2, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, á ráðandi hlut í Lyf og heilsu.

„Fyrirtækið rekur 27 lyfjaverslanir undir merkjunum Lyf og heilsu, Apótekarinn, Garðsapótek og Apótek Hafnarfjarðar. Félagið rekur einnig 4 lyfjaútibú. Auk lyfjaverslana rekur félagið tvær gleraugnaverslanir undir merkinu Augastaður, SA Lyfjaskömmtun og Gamla apótekið, sem sérhæfir sig í framleiðslu á kremum, áburðum og olíum. Alls starfa um 300 manns hjá félaginu í um 175 stöðugildum.

Félagið leggur áherslu á heilsu og heilbrigði og er markmið þess að auka lífsgæði viðskiptavina sinna, veita persónulega, örugga og faglega þjónustu með breiðu úrvali lyfja, heilsutengdra vara og snyrtivara. Stefnt er að því að styðja við þessar áherslur og markmið, enda eru lyfjaverslanir lykil innviðir í hverju samfélagi.

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur langa reynslu af fjárfestingum, að styðja við vöxt og að leiða umbreytingar. Markmið Alfa Framtaks er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×