Erlent

Öryggis­ráðið sam­þykkir til­lögu Banda­ríkjanna um fram­tíð Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tillagan var samþykkt með þrettán atkvæðum gegn engu. Kína og Rússland sátu hjá.
Tillagan var samþykkt með þrettán atkvæðum gegn engu. Kína og Rússland sátu hjá. Getty/Anadolu/Selçuk Acar

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær áætlanir Bandaríkjastjórnar um framtíð Gasa. Tillagan var samþykkt með þrettán atkvæðum. Ekkert ríki greiddi atkvæði gegn tillögunni en Kína og Rússland sátu hjá.

Tillagan felur meðal annars í sér að svæðið verður tímabundið á forræði „friðarstjórnar“ undir forystu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Gert er ráð fyrir að alþjóðlegt lið taki yfir öryggismál á svæðinu í stað Ísraelshers og að drög verði lögð að enduruppbygginu.

Upphafleg tillaga Bandaríkjamanna fól ekki í sér viðurkenningu á Palestínu né orðalag um mögulega stofnun sjálfstæðrar Palestínu en orðalaginu var breytt til að koma til móts við kröfur Arabaríkjanna.

Það er þó ekki afdráttarlausara en svo að talað er um að þegar heimastjórnin hefur verið endurnýjuð og uppbygging á Gasa hafin, kunni að skapast aðstæður þar sem sjá má fyrir sér vegferð í átt að sjálfstæðri Palestínu.

Þrátt fyrir samþykkt tillögunar í öryggisráðinu er fátt fast í hendi. Ísraelsstjórn hefur til að mynda ítrekað að hún muni ekki fallast á stofnun Palestínu og þá hafa Hamas samtökin ítrekað að þau muni ekki samþykkja að afvopnast.

Enn fremur hefur ekkert ríki skuldbundið sig formlega til að sinna öryggiseftirliti og friðargæslu á Gasa.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×