Umræðan

Trump býður upp á upp­skrift að stríði og spillingu – ekki friði

Anne Applebaum skrifar

28 punkta „friðaráætlunin“ sem Bandaríkin og Rússland vilja þröngva upp á Úkraínu og Evrópu er rangnefni. Þetta er engin friðaráætlun. Hún er þess í stað upplegg sem veikir Úkraínu, skapar sundrung milli Bandaríkjanna og Evrópu og undirbýr jarðveginn fyrir stærra stríð í framtíðinni. Í millitíðinni þjónar hún hagsmunum ónefndra rússneskra og bandarískra fjárfesta, á kostnað allra annarra.

Áætlunin var samin af Steve Witkoff, fasteignamógúll með enga sögulega, landfræðilegra eða menningarlegrar þekkingu á Rússlandi eða Úkraínu, og Kirill Dmitriev, yfirmanni rússneska þjóðarsjóðsins sem ver mestum tíma sínum í gerð viðskiptasamninga. Birting áætlunarinnar kom evrópskum leiðtogum í opna skjöldu – þeir bera nú bróðurpartinn af hernaðarlegum kostnaði stríðsins – og vakti einnig reiði Úkraínumanna. Þeir töldu fyrst óvíst hvort taka ætti hana alvarlega þar til þeim var sagt að samþykkja hana fyrir Þakkargjörðardaginn næstkomandi fimmtudag ella yrði dregið úr öllum frekari hernaðarstuðningi Bandaríkjanna. Jafnvel þótt áætlunin verði ekki að veruleika mun þessi yfirlætisfulli og ruglingslegi úrslitakostur, settur aðeins nokkrum dögum eftir að bandaríska utanríkisráðuneytið samþykkti sölu á eldflaugavarnarbúnaði til Úkraínu, valda varanlegu tjóni á orðspori Bandaríkjanna sem áreiðanlegs bandamanns, ekki aðeins í Evrópu heldur um allan heim.

Evrópskir skattgreiðendur, sem fjármagna núna nánast allan hernaðar- og mannúðarstuðning við Úkraínu, eiga engu að síður að leggja fram aðra 100 milljarða dala í enduruppbyggingu landsins.

Kjarninn í áætluninni endurtekur gamalkunna kröfu Moskvustjórnarinnar. Bandaríkin myndu viðurkenna yfirráð Rússa yfir Krímskaga, Dónetsk og Luhansk – sem öll eru löglega hluti Úkraínu. Rússlandi yrði í reynd leyft að halda þeim svæðum í Zaporizjía og Kherson sem það hefur hernumið. Á öllum þessum hernámsvæðum hafa Rússar beitt handtökum, pyntingum og kerfisbundinni kúgun gagnvart íbúum – og þar sem Rússland yrði ekki látið svara til saka fyrir stríðsglæpi sína gætu þeir haldið slíku áfram án nokkurra afleiðinga. Úkraína myndi hörfa frá þeim hluta Donetsk sem það hefur enn stjórn á, svæði sem hefur verið mikið víggirt og lagt undir jarðsprengjur, og ef það félli myndi opnast leið inn í miðhluta Úkraínu fyrir árásum Rússlandsher í framtíðinni.

Fáránleg og innihaldslaus fullyrðing

Áætlunin myndi ekki einungis framselja land, íbúa og eignir til Rússlands; hún virðist vísvitandi hönnuð til að veikja Úkraínu, bæði pólitískt og hernaðarlega, þannig að Rússland ætti auðveldara með að ráðast inn að nýju eftir ár – eða tíu ár. Samkvæmt þeirri útgáfu sem dagblaðið Financial Times birti í gær, föstudag, myndi „fullveldi Úkraínu“ verða staðfest. En síðan er sett fram strangt skilyrði: Úkraína verði að „festa í stjórnarskrá“ sérstakt bann við að ganga í NATO. Úkraína verði að minnka herafla sinn úr 900 þúsund hermönnum í 600 þúsund. Úkraína mætti ekki hýsa erlenda hermenn. Úkraína verði að halda nýjar kosningar innan 100 daga – krafa sem ekki er gerð til Rússlands, einræðisríkis sem hefur ekki haldið frjálsar kosningar í yfir tvo áratugi.

Í staðinn segir áætlunin að Úkraína „muni fá öryggistryggingar.“ Engin frekari útfærsla er þó til staðar og engin ástæða er til að ætla að Donald Trump myndi standa við slíkar tryggingar. Rússland myndi jafnframt „festa í lög stefnu sína um friðsamleg samskipti við Evrópu og Úkraínu“ – fáránleg og innihaldslaus fullyrðing, þar sem Rússland hefur nú yfirlýsta stefnu um hernaðarlega ágengni gagnvart bæði Úkraínu og Evrópu og hefur ítrekað brotið öll fyrri loforð. Bandaríkin myndu aflétta refsiaðgerðum gegn Rússlandi og missa þannig þau einu ítök sem þau hafa núna til að þrýsta á Vladimír Pútín; bjóða Rússlandi aftur inngöngu í G8-klúbbinn og leiða landið að nýju inn í heimshagkerfið. Sérkennilegt orðalag á löngum köflum í skjalinu bendir til þess að hlutar þess hafi upphaflega verið skrifaðir á rússnesku.

Af hverju þrýstir Hvíta húsið á að Úkraína samþykki rússneska áætlun sem leggur drög að næstu stríðsátökum? Skjalið gefur nokkrar vísbendingar. Þar er gert ráð fyrir að Bandaríkin taki yfir stjórn á 100 milljörðum Bandaríkjadala af frystum rússneskum eignum – til að „fjárfesta“ í Úkraínu og fá „50 prósent hagnaðarins“ af þeim fjárfestingum. Evrópuríki, sem raunverulega halda utan um meirihluta eignanna, fengju ekkert. Evrópskir skattgreiðendur, sem fjármagna núna nánast allan hernaðar- og mannúðarstuðning við Úkraínu, eiga engu að síður að leggja fram aðra 100 milljarða dala í enduruppbyggingu landsins.

Í áratug hefur Rússland unnið markvisst að því að skapa sundung milli Evrópu og Bandaríkjanna, grafa undan NATO og þannig veikja samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins. Ef þessi áætlun yrði samþykkt myndi hún þjóna þeim tilgangi fullkomlega.

Samhliða myndu Bandaríkin og Rússland „gera langtímasamning um efnahagssamvinnu á sviði orku, náttúruauðlinda, innviða, gervigreindar, gagnavera, sjaldgæfra jarðefna og annarra gagnkvæmra viðskiptatækifæra.“ Þetta kemur ekki á óvart. Pútín hefur sjálfur talað um að „nokkur fyrirtæki“ séu þegar að undirbúa endurreisn viðskiptatengsla milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Í mars greindi Financial Times frá einum þessara samninga. Mattias Warnig – þýskur viðskiptamaður og fyrrverandi rússneskur njósnari með náin tengsl við Pútín og á bandarískum refsiaðgerðarlistum – hefur reynt að koma á samskiptaleiðum bakvið tjöldin til Trump-stjórnarinnar í gegnum bandaríska fjárfesta sem vilja enduropna Nord Stream 2 leiðsluna, sem er að hluta eyðilögð eftir sprengingu sem úkraínskir skemmdarverkarmenn gerðu snemma í stríðinu. Einn Bandaríkjamaður sem þekkir til málsins sagði Financial Times að fjárfestunum væri í raun boðið „peninga fyrir ekkert“ – sem er augljóslega afar freistandi tilboð.

Hvaða fyrirtæki eða ólígarkar í Bandaríkjunum hagnast?

Önnur atriði í viðskiptaviðræðum Witkoff og Dmitriev eru enn leyndarmál. Úkraínumenn og Evrópubúar, sem myndu bera allan hernaðarlegan og efnahagslegan kostnað áætlunarinnar, eiga rétt á að vita þau. Umfram allt ættu Bandaríkjamenn að krefjast upplýsinga um þær viðskiptaviðræður sem nú standa yfir: Hvaða fyrirtæki eða ólígarkar í Bandaríkjunum hagnast? Eru fjölskyldumeðlimir eða pólitískir bandamenn Trump þar á meðal? Þar sem áætlunin hefur verið lögð fram „í þeirra nafni“ sem hluti af bandarískri utanríkisstefnu ættu allir að vita svörin áður en nokkur samningur yrði samþykktur.

Í áratug hefur Rússland unnið markvisst að því að skapa sundung milli Evrópu og Bandaríkjanna, grafa undan NATO og þannig veikja samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins. Ef þessi áætlun yrði samþykkt myndi hún þjóna þeim tilgangi fullkomlega. Saga Evrópu er sorglega rík af þeim mistökum að stórveldi semja um örlög smærri ríkja án aðkomu þeirra með hrikalegum afleiðingum. Molotov–Ribbentrop-samningurinn leiddi til síðari heimsstyrjaldar. Yalta-samkomulagið gaf okkur Kalda stríðið. Witkoff–Dmitriev-samkomulagið, ef það nær fram að ganga, mun falla beint inn í þá hefð.


Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Anne Applebaum á vefsíðu The Atlantic laugardaginn 22. nóvember.

Anne Applebaum er bandarískur sagnfræðingur og blaðamaður og starfar í dag sem pistlahöfundur hjá The Atlantic. Hún er jafnframt með ríkisborgararétt í Póllandi og gift utanríkisráðherra landsins, Radoslaw Si­korski. Hún er meðal annars höfundur bókanna Aurocracy, Inc., Gulag: A History, Red Famine og Twilight of Democracy: The Seductive Lure of Authoritarianism.


Tengdar fréttir

Trump ekki boðað friðaráætlun fyrir Úkraínu heldur undan­hald og flótta frá prinsippum

Það sem komið hefur frá Trump og hans mönnum er auðvitað ekki friðaráætlun fyrir Úkraínu, heldur undanhald og flótti frá prinsippum. Þá hefur Trump stjórnin ofan í kaupið hallað Bandaríkjunum að Rússum og sjónarmiði þeirra um að Úkraína beri í reynd ábyrgð á stríðinu, gagnrýnt Zelensky Úkraínuforseta og niðurlægt – og tekið ennfremur undir lýsingar Rússa á honum sem einræðisherra.

Glittir í að Trump beiti loksins Rússa þrýstingi – eða snýr hann baki við Úkraínu?

Með Trump varð sú grundvallarbreyting á stefnu Bandaríkjanna að upp kom óvissa um hvort Úkraína nyti yfir höfuð stuðnings þeirra gegn Rússum. Einnig varð til óvissa um afstöðu Bandaríkjanna til Rússlands og Pútín-stjórnarinnar. Markmiðið virtist allt að því vera að vingast við Pútín á kostnað Úkraínu. Standa með andstæðingi NATO á örlagatímum í Evrópu.






×