Skoðun

Ætti Sunda­braut að koma við í Við­ey?

Ólafur William Hand skrifar

Tími til kominn að gefa þessari perlu Reykjavíkur nýtt líf

Viðey er ein af fallegustu náttúruperlum Reykjavíkur og um leið ein sú vannýttasta.

Þangað fer lítið af fólki nema kanski einu sinni á ári þegar friðarsúlan er tendruð. Þá fyllist Viðeyjarferjan og eyjan iðar af lífi í nokkrar klukkustundir, en svo dettur hún aftur í kyrrð og einsemd. Aðrir gestir koma þangað yfir sumartímann, en ferjusiglingar eru háðar veðri og árstíðum og gera reglulega heimsókn að áskorun.

Það er í raun sorglegt að sjá hve lítið Viðey er nýtt miðað við hvað hún hefur upp á að bjóða.

Þessi staður, sem er aðeins nokkrar mínútur frá miðbænum, gæti verið eitt besta útivistarsvæði landsins (Central Park okkar Reykvíkinga) ef aðgengi væri tryggt allt árið um kring.

Viðey verður aldrei byggingarland en hún getur orðið lífandi útivistasvæði

Enginn vill sjá Viðey byggða. Saga eyjunnar, náttúran og andrúmsloftið eru hluti af Reykjavík. Hún þarf ekki að liggja ónotuð.

Ef Sundabraut yrði lögð með viðkomu í Viðey gæti það breytt öllu. Með slíku mannvirki yrði eyjan loksins aðgengileg allan ársins hring, án þess að náttúrunni væri fórnað.

Golf í Viðey samfélagsleg og vistvæn framtíðarsýn

Golf er íþrótt sem sameinar hreyfingu, náttúru og samveru.

Á Íslandi eru nú tugir þúsunda skráðra kylfingar og mikill fjöldi óskráðra, og fjöldinn eykst ár frá ári. Þúsundir borgarbúa eru á biðlistum eftir aðild að golfklúbbum. Það segir sitt um eftirspurnina eftir útivist og íþrótt sem höfðar til fólks á öllum aldri.

Viðey býður upp á fullkomnar aðstæður til að skapa golfvöll sem væri einstakur í heiminum þar sem landslag, náttúra og saga myndu mætast í friðsamlegri sátt.

Viðeyjarstofa gæti fengið nýtt hlutverk sem golfskáli og menningarhús í senn. Þar mætti bjóða upp á veitingar, sýningar og viðburði fyrir gesti, hvort sem þeir spila golf eða ekki.

Golfvellir hafa sýnt að þeir geta lifað í sátt við náttúruna. Á Nesvelli á Seltjarnarnesi verpir krían og annað fuglalíf þrífst í nágrenni kylfinga um allt land. Þar hafa fuglar fundið sér skjólsælan stað í nærveru fólks.

Þetta er góð áminning um að golf og náttúra geta farið hönd í hönd ef rétt er staðið að skipulagi.

Hjólreiðar, gönguleiðir og fjölþætt útivist

Golfið væri aðeins hluti af stærri framtíðarsýn.

Viðey gæti orðið miðstöð gönguferða, hjólreiða og útivitarstaður þar sem borgarbúar og ferðamenn gætu notið kyrrðar, hreyfingar og náttúru, allt í hjarta borgarinnar.

Tækifæri sem má ekki glata

Ef stjórnvöld í Reykjavík sýndu framsýni gæti Viðey orðið ein helsta stolt borgarinnar og dæmi um hvernig náttúra, íþróttir, saga og nútímahugmyndir geta sameinast.

Sundabraut með viðkomu í Viðey væri fyrsta skrefið að því að gefa þessari perlu nýtt líf, án þess að spilla því sem gerir hana einstaka.

Viðey á skilið annað hlutskipti en að vera gleymd eyja sem sést aðeins úr fjarlægð.

Tími er kominn til að tengja hana við líf borgarinnar í orðsins fyllstu merkingu.

Höfundur er framkvæmdarstjóri Lionfish og áhugamaður um golf.




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×