Erlent

Annað hvort hörfi Úkraínu­menn eða verði hraktir burt með valdi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vladimir Pútín er staddur í opinberri heimsókn á Indlandi, þar sem hann ræddi við og snæddi með forsætisráðherranum Narendra Modi.
Vladimir Pútín er staddur í opinberri heimsókn á Indlandi, þar sem hann ræddi við og snæddi með forsætisráðherranum Narendra Modi. Getty/Anadolu/Kreml

Vladimir Pútín Rússlandsforseti ítrekaði hótanir sínar gagnvart Úkraínu í viðtali við India Today í gær og sagði að annað hvort myndu Úkraínumenn hörfa frá Donbas eða verða hraktir þaðan með hernaðarvaldi.

„Annað hvort frelsum við þessi svæði með valdi eða Úkraínumenn yfirgefa þau,“ sagði forsetinn. Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti hefur neitað því að verða við kröfum Rússa um að gefa eftir land.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að samningamenn hans teldu Pútín vilja binda enda á átökin í Úkraínu. Þetta er endurtekið stef hjá Bandaríkjunum en í reynd hefur Pútín sýnt afar lítill vilja til sátta, að minnsta kosti ekki nema með algjörri uppgjöf Úkraínumanna.

Í viðtalinu við India Today sagðist Pútín ekki hafa séð breyttar tillögur Bandaríkjanna áður en hann fundaði með Steve Witkoff og Jared Kushner í Moskvu í vikunni. Þess vegna hafi fundurinn tekið um fimm tíma.

Afstaða Rússa varðandi tillögurnar væri að sumar þeirra mætti ræða en aðrar væru óásættanlegar. Selenskí hefur hins vegar sagt að það sé ljóst að auka þurfi þrýsting á Rússa til að ná fram friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×