Innlent

Nú mega gælu­dýr aftur ferðast með eig­endum sínum

Árni Sæberg skrifar
Nú mega hundar aftur ferðast í farþegarýmum flugvéla á leið til Íslands.
Nú mega hundar aftur ferðast í farþegarýmum flugvéla á leið til Íslands. Getty/Mauinow1

Bann við flutningi gæludýra í farþegarými flugvéla hefur verið fellt út með breytingu á reglugerð um innflutning hunda og katta. Fyrri reglugerðarbreyting sem bannaði slíkan flutning tók gildi í apríl í fyrra.

Talsverða athygli vakt í mars í fyrra þegar Matvælastofnun tilkynnti að frá og með 11. apríl þess árs yrði ekki lengur heimilt að flytja hunda og ketti til landsins í farþegarými flugvéla.

Nú hefur atvinnuvegaráðuneytið tilkynnt að bannið hafi verið fellt niður með annarri reglugerðarbreytingu.

Leyfi þarf að liggja fyrir og dýrin þurfa í einangrun

Til að flytja megi gæludýr til landsins þurfi að vera fyrirliggjandi innflutningsleyfi, sem Matvælastofnun gefi út. Við komu til landsins skuli dýrin einnig afhent til einangrunar samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.

Ákvæðum um hjálpar- og sprengjuleitarhunda hafi einnig verið breytt í fyrrgreindri reglugerð en framvegis sé heimaeinangrun slíkra hunda heimil.

Reglugerðardrögin hafi verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og ellefu umsagnir borist.

Minni streita og álag af því að ferðast með eiganda

„Umræddar breytingar eru mikilvægar út frá sjónarmiðum dýravelferðar, dýr upplifa minni streitu og álag ef þau ferðast með eiganda sínum fremur en í farangursrými eða vöruflutningum. Breytingarnar eru jafnframt til samræmis við reglur víða erlendis þar sem flutningur gæludýra í farþegarými er heimill án þess að það bitni á smitvörnum, enda eru gæðakröfur og vottanir flugfélaga og yfirvalda skýrar.“

Breytingarnar stuðla einnig að auknum sveigjanleika fyrir gæludýraeigendur og tryggja áframhaldandi fjölbreytni og heilbrigði hunda- og kattategunda á Íslandi. Þannig er tekið tillit til hagsmuna gæludýra og eigenda þeirra auk þess að verndun genamengis hunda- og kattategunda er tryggð til framtíðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×