Erlent

Banda­ríkja­menn vilji koma á frí­verslunar­svæði í Donbas

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí segir valdið til að gefa eftir landsvæði liggja hjá úkraínsku þjóðinni.
Selenskí segir valdið til að gefa eftir landsvæði liggja hjá úkraínsku þjóðinni. Getty/Charles McQuillan

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir Bandaríkjastjórn vilja að Úkraínumenn dragi sig frá þeim svæðum þar sem þeir hafa ennþá yfirráð og að þar verði síðan komið á fríverslunarsvæði.

Um sé að ræða breytingu frá fyrri tillögum Bandaríkjanna um að Úkraínumenn láti svæðið eftir til Rússa en samkvæmt nýju tillögunni sé hugmyndin sú að Rússar fengju ekki yfirráð yfir viðkomandi svæði.

Þeir virðast hins vegar myndu fá að halda þeim hluta Donbas sem þeir hafa sölsað undir sig nú þegar.

„Hver myndi stjórna þessu svæði, sem þeir kalla „fríverslunarsvæði“ eða „afvopnað svæði“; þeir vita það ekki,“ sagði Selenskí í samtali við blaðamenn í gær.

Sagði forsetinn Úkraínustjórn ekki telja tillöguna sanngjarna nema hún myndi fela í sér tryggingu fyrir því að Rússar tækju ekki svæðið yfir eftir að Úkraínuher yfirgæfi það.

Selenskí sagði einnig að ráðstöfun af þessu tagi yrði aldrei samþykkt nema eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem bera þyrfti öll mál varðandi eftirgjöf landsvæðis undir þjóðina.

Þá staðfesti hann að hitt úrlausnarefnið sem menn stæðu enn frammi fyrir væru yfirráð yfir Zaporizhzhia kjarnorkuverinu.

Enn er hins vegar óvíst hvort Rússum sé alvara með samningaviðræðum, eða hvort þeir eru einfaldlega að kaupa sér tíma til að geta ráðist enn lengra inn í Úkraínu.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að ef Vladimir Pútín Rússlandsforseti fengi sínu framgengt í Úkraínu myndu líkurnar á stríði í Evrópu aukast til muna. 

Margir teldu tímann á bandi Evrópuríkjanna en svo væri ekki; þau þyrftu að grípa strax til aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×