Innlent

„Ég var kölluð „hryðju­verka­maður““

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mahdya á ferðalagi ásamt fjölskyldu sinni.
Mahdya á ferðalagi ásamt fjölskyldu sinni.

„Þegar fólk sér prófílmyndina mína og að ég er múslímsk kona þá finnst þeim í lagi að gera grín að trúarbrögðunum mínum, að kalla mig ákveðnum hlutum vegna trúarbragða minna og að segja mér að ég eigi ekki heima í þessu samfélagi. Að ég eigi að fara, snúa aftur þaðan sem ég kom, og svo framvegis.“

Þetta segir Mahdya Malik, sem hefur verið búsett á Íslandi í ellefu ár. Í grein sem hún skrifaði og birtist á Vísi 5. desember síðastliðinn, segir hún að þrátt fyrir orðspor Íslands á erlendri grundu sem jafnréttisparadísar, sé það ekki upplifun allra.

Fréttastofa ræddi við Mahdyu um upplifun hennar af því að vera kona af erlendum uppruna á Íslandi, að vera brún og múslímsk, og um „fjórðu vaktina“.

Tónninn annar en gagnvart íslenskum konum

Í grein sinni vakti Mahdya athygli á þeim fordómum sem konur af erlendum uppruna mæta á Íslandi, ekki síst á netinu. Hún sagði þær stimplaðar „öðruvísi“ og vera heppilegt skotmark í ákveðnum afkimum internetsins, þar sem andúð, forréttindablinda og kvenfyrirlitning fengju að grassera.

Mahdya segist ekki gera sér grein fyrir því hvort konur af erlendum uppruna verði endilega fyrir meiri áreitni og ofbeldi á netinu en aðrar konur en það sé upplifun þeirra að tónninn sé annar.

„Það er þetta hvernig talað er við okkur; skaðlegt orðaval og annað sem er kannski öðruvísi en það sem íslenskar konur upplifa,“ segir hún. Sem dæmi nefnir hún athugasemdir þess efnis að það ætti að handtaka hana og flytja úr landi fyrir að standa með Palestínu. „Ég var kölluð „hryðjuverkamaður“,“ segir hún.

Mahdya er stjórnarkona í Laufey, ungmennaráði Kvenréttindafélags Íslands.

Mahdya flutti, eins og fyrr segir, til Íslands fyrir ellefu árum, ásamt eiginmanni sínum. Hann er breskur og þau kynntust á Bretlandi, þar sem Mahdya bjó í um áratug. Þar áður, frá því að hún fæddist og þar til hún var um tíu ára gömul, bjó hún í Þýskalandi.

Að sögn Mahdyu hafði hún engar hugmyndir um Ísland fyrirfram, nema að það væri friðsælt land. Það hafi hins vegar komið henni á óvart þegar hún fluttist hingað og fór að starfa með öðrum konum af erlendum uppruna, hversu útundan þær væru í umræðunni og allri ákvarðanatöku.

Hún segir það almenna upplifun.

„Það er ekki eins og ein okkar upplifi valdeflingu og önnur ekki. Þetta á við um næstum allar okkar sem búa á Íslandi. Við komum hingað því við sjáum Ísland sem gósenland fyrir konur en svo þegar við erum fluttar þá er ekki komið jafnt fram við okkur; við fáum minna borgað, fáum ekki störf við hæfi og fleira,“ segir Mahdya.

Frjáls... en samt ekki

Mahdya segir um að ræða ákveðna mótsögn. Stefnan sé rétt og kerfið miði í rétta átt en í framkvæmd sé ekki hugsað eða tekið tillit til kvenna af erlendum uppruna nema í framhjáhlaupi.

Hvað varðar að vera múslimi á Íslandi segist Mahdya bæði hafa orðið fyrir áreiti á netinu og úti á götu. Hún ber höfuðklút og hefur upplifað að fólk komi upp að henni, sé agressívt og segi henni að fara heim. Það þurfi þó ekki höfðklútinn til, eins og vinkona hennar hafi reynt.

„Hún er bara brún stelpa sem er að lifa lífinu á Íslandi,“ segir Mahdya. „Og fólk spyr hana: Þú hlýtur að vera svo glöð að vera hér með allt þetta frelsi? Og hún segir: Ja, já en ég upplifi líka að vera ekki svo frjáls því að á sama tíma og þú ert ekki að gagnrýna mig fyrir að trúarbrögð mín, að vera með höfuðklút, þá er ég gagnrýnd fyrir að kunna ekki tungumálið nógu vel eða það er kommentað á það hversu mörg börn mig langar að eiga. Allt sem ég segi er gagnrýnt og fellt undir steríótýpu.“

Mahdya kemur einmitt inn á þetta viðbótarálag í grein sinni, þar sem hún talar um það sem „fjórðu vaktina“. Þar segir hún:

„Erlendar konur takast oft á við áskoranir löngu áður en ofbeldi kemur við sögu. Fræðimenn tala gjarnan um „þriðju vaktina,“ sem er ólaunuð hugræn vinna gagnvart heimilinu, tilfinningaleg vinna og umönnun sem konur bera fremur ábyrgð á heldur en karlar. Innflytjendakonur sinna hins vegar „fjórðu vaktinni“: að læra nýtt tungumál, byggja upp menntun eða starfsréttindi á ný, kljást við íslenska stjórnsýslu, mynda félagsnet og ala upp börn í menningarumhverfi sem getur virst framandi eða jafnvel útilokandi. Álagið við þessa aðlögun eykur berskjöldun, enda reynir mikið á hugræna og tilfinningalega getu. Þegar stafrænt áreiti bætist við eykst álagið enn frekar. Stafrænu tækin sem erlendar konur reiða sig á fyrir aðlögun, svo sem samfélagsmiðlar, spjallforrit, samfélagshópar, verða að vettvöngum þar sem þær verða að skotmarki, verða fyrir þöggun og kynbundinni hlutgervingu.“

Von í unga fólkinu

Mahdya hefur unnið ötullega að málefnum kvenna af erlendum uppruna og situr meðal annars í stjórn Laufeyjar, ungmennaráðs Kvenréttindafélags Íslands. Hún kennir ensku við Menntaskólann í Hamrahlíð og er í mastersnámi fyrir framhaldsskólakennara.

Hún segir nemendur sína veita sér ákveðna von.

„Ég er mikið í kringum ungt fólk og ég sé hvernig þau hegða sér, hvernig þau hugsa og hvernig þau tala við mig. Þau sýna svo mikla virðingu. Ekkert þeirra hefur verið leiðinlegt af því að ég er útlendingur eða múslimi eða neitt slíkt,“ segir hún. „Það veitir mér mikla von, því ég upplifi að þau séu að vanda sig við að koma því á framfæri að við gerum ekki upp á milli fólks, við komum ekki illa fram við fólk.“

Á sama tíma segist Mahdya stundum óska þess að fólk væri svolítið meira gagnrýnt á sjálft sig. Það sé ekki nóg að segja við sjálfan sig að maður sé ekki rasisti, heldur þurfi maður að vera virkur í því að vera and-rasisti og sjá til þess að kerfið sé það líka.

Mahdya er kennari og öflug baráttukona.

Spurð að því hvað það felur í sér segir Mahdya að það geti verið að grípa inn í þegar verið er að gera lítið úr öðrum, eða einfaldlega staldra við og velta því fyrir sér hvað sé að eiga sér stað þegar einn ræðst á annan.

„Það er að hugsa um kerfið sem viðheldur þessu. Af hverju var hópur af börnum að veitast að svörtu barni? Og þá veltir þú fyrir þér mögulegum svörum. Kannski er skólinn ekki að taka nógu vel á einelti eða að grípa nógu fast inn í. Þetta snýst um að vekja athygli á svona hegðun. Hey, ég tók eftir því að þetta gerðist og ég er að velta því fyrir mér af hverju. Af hverju gerðist þetta?“

Mahdya bendir á að það sama megi segja um kynbundið misrétti; það sé nauðsynlegt að velta því fyrir sér á gagnrýnin hátt hvers vegna konum sé mismunað.

Spenna innra með okkur sem fær útrás á netinu

Sjálf segist Mahdya í raun njóta forréttinda, þar sem hún sé þýskur ríkisborgari og fær um að standa á eigin fótum. Þannig standi hún sterkar en margir aðrir einstaklingar af erlendum uppruna. 

Hún þekkir það hins vegar að vera barn innflytjenda og man eftir óstöðugleikanum fyrstu ár sín í Þýskalandi en foreldrar hennar fluttust þangað frá Pakistan. Barnaæska Mahdyu einkenndist meðal annars af sífelldum flutningum úr einu tímabundnu húsnæði í annað og henni er afar hugleikið hvernig komið er fram við börn hælisleitenda.

„Þegar við horfum á fólkið sem er að fara á milli landa, þá hugsum við ekki um börnin. Og mér finnsta það mjög erfitt hvernig hugsunarhátturinn virðist vera: Ja, þetta eru ólöglegir innflytjendur og það eru ólöglegir innflytjendur að koma til landsins og við ætlum að flytja þessa ólöglegu innflytjendur úr landi. En staðreyndin er sú að fullorðnum ólöglegum innflytjendum fylgja oft börn og ég hugsa bara um það hvernig þessi börn fá ef til vill ekki þau tækifæri sem ég fékk.“

Mahdya segist svolítið uggandi yfir því hvernig mál eru að þróast hvað varðar umræðuhefðina á netinu, ekki síst þegar hún hugsar um börnin sín.

Mahdya segist taka miklu meira eftir áreiti á netinu en hún gerði áður en það sé ekki síst vegna þess að hún hafi ekki verið mikið á samfélagsmiðlum fyrr en hún kom til Íslands, þar sem mikið af daglegu lífi fari fram í gegnum Facebook.

Þá segist hún upplifa að andrúmsloftið hafi breyst á síðustu fimm árum. „Ég get ekki útskýrt það,“ segir hún. „Það er spenna í heiminum. Stríð. Þjóðarmorð. Allt þetta er að gerast í kringum okkur. Og bara sem manneskja þá finnst mér ég vera á nálum.“

Verst sé að hún finni ekki til sama öryggis á Íslandi og hún gerði fyrir sirka fimm eða sex árum. Þar spili kórónuveirufaraldurinn inn í, þar sem fólk fór að lifa meira í gegnum netið. „Það breytti okkur held ég og mér finnst við ekki hafa náð okkur aftur sem samfélag eftir Covid. Það er öll þessi spenna í heiminum og mér finnst allir einhvern veginn fá útrás fyrir hana á netinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×