Erlent

Segjast hafa myrt átta sæfar­endur til við­bótar

Kjartan Kjartansson skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur hafnað fréttum um að hann hafi gefið hernum skipanir um að drepa alla á bátum sem hann hefur ráðist á í Karíbahafi og Kyrrahafi á undanförnum mánuðum.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur hafnað fréttum um að hann hafi gefið hernum skipanir um að drepa alla á bátum sem hann hefur ráðist á í Karíbahafi og Kyrrahafi á undanförnum mánuðum. AP/Alex Brandon

Bandaríkjaher tilkynnti í gær að hann hefði myrt átta manns um borð í þremur bátum á alþjóðlegu hafsvæði á austanverðu Kyrrahafi. Hátt í hundrað manns hafa nú verið teknir af lífi utan dóms og laga með þessum hætti í árásum Bandaríkjamanna.

Líkt og í hinum 24 árásum Bandaríkjahers sem vitað er um frá því í september heldur Bandaríkjastjórn því fram að fíkniefnasmyglarar hafi verið um borð í bátunum sem var grandað í gær.

Engin sönnunargögn um meint smygl voru lögð fram en Bandaríkjaher birti myndskeið af einum bátanna á siglingu áður en hann var sprengdur í loft upp.

Bandaríkjastjórn hefur skilgreint fíkniefnasmyglara frá Rómönsku-Ameríku sem „fíkniefnahryðjuverkamenn“ og réttlætt árásir sínar með því að hún eigi í vopnuðum átökum við þá. 

Meint hryðjuverk meintra smyglaranna eiga að felast í dauðsföllum sem fíkniefnin valdi í Bandaríkjunum. Engu að síður þykir ljóst að í það minnsta einhver þeirra skipa sem Bandaríkjamenn hafa grandað á undanförnum mánuðum hafi alls ekki verið á leiðinni til Bandaríkjanna.

Vaxandi gagnrýni á drápin á þingi

Bandaríkjaher hefur nú drepið að minnsta kosti 95 manns í 25 árásum sem vitað er um frá því í haust, að sögn AP-fréttastofunnar.

Drápin sæta vaxandi gagnrýni á Bandaríkjaþingi og hafa sumir repúblikanar jafnvel lýst áhyggjum af þeim, sérstaklega eftir að upplýst var að herinn hefði skotið aftur á bát sem hann var þegar búinn að sprengja upp, gagngert til þess að drepa tvo menn sem reyndu að bjarga lífi sínu á braki úr bátnum.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, og Marco Rubio, utanríkisráðherra, eru sagðir ætla að ræða við þingmenn í báðum deildum þingsins um árásirnar á bak við luktar dyr á næstunni.

Bæði embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan sögðu Vísi í síðasta mánuði að engin lagaheimild væri til þess að granda bátum við Ísland eingöngu vegna grunsemda um fíkniefnasmygl. Slíkt gæti einnig strítt gegn lögum og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland á aðild að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×