Skoðun

Myndu ekki þurfa að flytja heim aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Mikilvægt er í ljósi umræðunnar að halda grundvallarstaðreyndum til haga þegar rætt er um íslenzka ríkisborgara sem búsettir eru í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og erlenda ríkisborgara frá ríkjum innan svæðisins sem búsettir eru hérlendis. Mjög langur vegur er frá því að þeir þyrftu að flytja til síns heima heyrði samningurinn sögunni til.

Fyrir það fyrsta búa langflestir íslenzkir ríkisborgarar, sem búsettir eru í öðrum ríkjum innan EES, á hinum Norðurlöndunum og njóta þar ekki síðri réttinda en felast í EES-samningnum vegna norrænna samninga sem eru í fullu gildi. Þó samningsins nyti ekki við lengur þyrftu þeir fyrir vikið ekki að flytja aftur heim líkt og til dæmis var haldið fram í grein á Vísi nýverið.

Fjöldi þeirra íslenzku ríkisborgara sem búa í öðrum ríkjum innan EES utan hinna Norðurlandanna er minni en í Bandaríkjunum einum. Um sex þúsund. Kæmi til þess að EES-samningurinn heyrði sögunni til yrði líklega samið um stöðu þeirra innan EES og stöðu ríkisborgara ríkja svæðisins hér á landi líkt og til dæmis var gert þegar Bretar yfirgáfu Evrópusambandið.

Við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var þannig samið um það að allir þeir brezku ríkisborgarar sem búsettir voru í ríkjum innan sambandsins, og þar með innan EES, héldu óskertum réttindum sínum. Þetta er hliðstætt á við það þegar við stofnuðum lýðveldið 17. júní 1944. Þá héldu danskir og íslenzkir ríkisborgarar fæddir fyrir þann tíma öllum réttindum sínum.

Hvað varðar framtíðina gætu ríkisborgarar frá ríkjum innan EES eftir sem áður sezt að og starfað hér á landi. Það færi þá einfaldlega eftir hérlendum reglum í þeim efnum og hvað samið yrði um. Sama á við um íslenzka ríkisborgara sem vildu setjast að eða vinna í þeim ríkjum sem eftir yrðu innan EES. Óbreytt staða yrði hins vegar á hinum Norðurlöndunum.

Með öðrum orðum er einungis um hræðsluáróður að ræða þegar því er haldið fram, líkt og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, gerði á Útvarpi Sögu á dögunum, að án EES-samningsins myndu allir íslenzkir ríkisborgarar búsettir í öðrum EES-ríkjum missa lífsviðurværi sitt. Sem utanríkisráðherra á hún að vita betur.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×