Innlent

Theo­dóra ætlar ekki fram aftur fyrir Við­reisn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theodóra S. Þorsteinsdóttir er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Kópavogi.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Theodóra S. Þorsteinsdóttir oddviti Viðreisnar í Kópavogi hyggst ekki bjóða sig fram að nýju í sveitarstjórnarkosningum 2026. Hún segist þakklát fyrir undanfarin tólf ár í sveitarstjórn en segist nú vilja eyða meiri tíma með barnabörnunum.

„Þetta hafa verið góð tólf ár og ég er ótrúlega þakklát fyrir þennan tíma, fyrir öll samtölin og samstarfið við íbúa Kópavogs. Ég mun alveg örugglega sakna bæjarmálanna og verkefnanna, ég brenn mest fyrir því að vinna með íbúum að skipulagsmálum, lýðheilsumálum og ýmsum öðrum málaflokkum. Ég er ekki komin með nóg, ég fæ aldrei nóg en það koma alltaf önnur tækifæri upp í hendurnar á mér og svo er það barnabarnið mitt sem á í mér hvert bein, mig langar til þess að fara að ferðast og njóta meiri tíma með fjölskyldunni,“ segir Theodóra.

Flokkurinn kom einum manni inn í bæjarstjórn í síðustu kosningum, en hafði áður tvo. Einar Örn Þorvarðarson skipaði 2. sæti listans og er varabæjarfulltrúi. Viðreisn í Kópavogi hefur boðað til prófkjörs í þrjú efstu sæti lista flokksins í bænum. Prófkjörið fer fram 7. febrúar og þurfa framboð að berast kjörstjórn eigi síðar en á hádegi föstudaginn 23. janúar. Theodóra segist hafa fundið fyrir miklum áhuga á störfum flokksins í bænum.

„Ég hef fundið fyrir miklum áhuga, þetta er í fyrsta skiptið sem við förum í prófkjör og það eru fjölmargir búnir að hafa samband við mig sem hafa lýst áhuga á því að taka þátt. Þannig að þetta verður mjög spennandi og ég hlakka til að sjá hvað verður með framboð Viðreisnar, ég held það séu mikil tækifæri í bænum fyrir Viðreisn í vor og ég er bjartsýn fyrir hönd flokksins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×