Innlent

Ríkis­stjórnin sendi leið­réttingu inn í beina út­sendingu

Agnar Már Másson skrifar
Ónefndur fulltrúi ríkisstjórnarinnar fann sig knúinn til að hafa samband við þáttarstjórnanda á Bylgjunni til að leiðrétta ummæli viðmælanda í beinni útsendingu.
Ónefndur fulltrúi ríkisstjórnarinnar fann sig knúinn til að hafa samband við þáttarstjórnanda á Bylgjunni til að leiðrétta ummæli viðmælanda í beinni útsendingu. Visir/Anton Brink

Bítinu á Bylgjunni bárust skilaboð frá fulltrúa stjórnarflokkanna sem vildi leiðrétta ummæli viðmælanda. Viðmælandinn hafði velt því fyrir sér hvort það væru samantekin ráð af hálfu formanna stjórnarflokkanna að hrósa hver öðrum í Silfrinu á mánudag. Fulltrúi ríkisstjórnarinnar þvertók fyrir það.

Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Miðflokksins, og Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru gestir í Bítinu á Bylgjunni í dag og ræddu þar aðallega stjórnmálin. Auk þess voru þau sammála um að Selfoss væri jólabær ársins og hefði betur í baráttu við Reykjavík í þeim efnum.

Þegar talið barst að þætti Silfursins á Rúv frá því á mánudag kvaðst Páll vera viss um að það hafi verið samantekin ráð hjá formönnum stjórnarflokkanna að hrósa hver öðrum og tala um mikla samstöðu, sem hann taldi geta orðið ótrúverðugt. Vigdís tók undir þetta og sagði hrósin farin að virka eins og „væmin tugga“.

Rúmum tveimur mínútum síðar barst þættinum skeyti í miðri útsendingu. „Ég get sagt að þetta komi alveg beint frá ríkisstjórninni,“ sagði Heimir Karlsson þáttarstjórnandi og las svo upp úr skilaboðunum. 

„Það eru engin samantekin ráð í hrósi,“ hafði Heimir eftir skilaboðum ríkisstjórnarinnar.  Hann kunni þó ekki við að ljóstra upp frá hvaða ráðherra þessi skilaboð hefðu borist.

Heyra má hljóðbrotið á tímanum 18.45 í spilaranum hér að neðan.

Vigdís bætti við að auðvitað væri því alltaf neitað. Páll sagði að það væri örugglega rétt að þetta væru ekki samantekin ráð, heldur væri þetta greinilega línan sem flokksformennirnir hefðu sett. 

„Og ég sé út af fyrir sig ekkert athugavert við það.“

Borgin krufin

Fleira var þó til umræðu í þættinum en dagskrá Ríkisútvarpsins. Sveitarstjórnarmálin voru einnig rædd, ekki síst fréttir gærdagsins um að Dóra Björt Guðjónsdóttir hefði tilkynnt á blaðamannafundi í gær að hún gengi til liðs við Samfylkinguna. Vigdís sagði það ekki koma á óvart enda væri stutt í sveitarstjórnakosningar.

„Þetta var nú allt of mikil skrautsýning, þessi blaðamannafundur, fyrir það eitt að kona í borgarstjórn Reykjavíkur er að skipta um flokk,“ sagði Vigdís. 

Hún sagðist telja að Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri héldi að með komu Dóru Bjartar gæti Samfylkingin nálgast kjörfylgið í Reykjavík. Hún benti þó á að fylgið væri líklegast frekar vegna Kristrúnar Frostadóttur, flokksformanns og forsætisráðherra, frekar en sitjandi borgarstjóra, sem njóti ekki mikilla vinsælda.

Viðreisn og vinstrið í kreppu

Páll vitnaði í Eirík Bergmann stjórnmálafræðing sem sagði í kvöldfréttum Sýnar í gær að Vinstri græn, Píratar og Sósíalistaflokkurinn væru orðnir að „tómum skeljum“ án fylgis. Vigdís tók undir.

VG og Píratar duttu út af þingi í síðustu kosningum og Sósíalistar hafa ekki náð manni inn á þing frá stofnun flokksins. Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, tilkynnti á dögunum að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður á næsta landsfundi en hún var kjörin slíkur á síðasta fundi.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórn, tilkynnti í síðustu viku um nýtt framboð sem hún kallað Vor til vinstri í kjölfar þess að illkvitnar deilur klufu Sósíalistaflokkinn. Vigdís sagðist ekki sjá þessa hreyfingu fyrir sér og teldi hana smíðaða á bak við tjöldin.

Vigdís vildi enn fremur meina að Viðreisn í borginni væri einnig í nokkurs konar tilvistarkreppu, rétt eins og VG og Sósíalistar, þar sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti hyggst ekki gefa kost á sér og Pavel Bartoszek sé einnig farinn á þing.

Páll velti fyrir sér hvort framboð Aðalsteins Leifssonar sé viðbragð forystu Viðreisnar við framboði Róberts Ragnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra Grindavíkur.

„Kannski var forystan ekkert sérstaklega ánægð með þetta fyrsta útspil,“ sagði Páll en tók þó fram að þessar vangaveltur byggðu ekki á miklu.

Telja að Guðlaugur taki slaginn

Páll, sem var lengi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði flokkinn hafa verið í tilvistarkreppu í Reykjavík í áratugi. Hann telur þó að fylgisaukning undanfarið sé líklega meira vegna óvinsælda meirihlutans en eigin verðleika.

Bæði Páll og Vigdís telja líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson fari í slaginn um oddvitasætið.

„Ég veðja á það núna, svona rétt fyrir jól, án þess að ég viti neitt,“ sagði Vigdís og benti á að Hildur Björnsdóttir hefði einnig gefið kost á sér og að baráttan gæti orðið spennandi. 

„Já, ég veit ekkert heldur,“ bætti Páll við. „En ef ég ætti að segja hvað mér finnst akkúrat núna, þá finnst mér það líklegra heldur en hitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×